Innlent

Lítið var laust á hótelum yfir hátíðarnar

Þetta glaðlega par var á gangi í miðborg Reykjavíkur á fimmtudag og naut vetrarveðursins á þessari síðustu viku ársins.
Þetta glaðlega par var á gangi í miðborg Reykjavíkur á fimmtudag og naut vetrarveðursins á þessari síðustu viku ársins. fréttablaðið/gva
Áætlað er að ríflega 4.000 ferðamenn hafi heimsótt Reykjavík nú um áramótin. Í fyrra er talið að um 3.500 ferðamenn hafi sótt borgina heim, að mati Höfuðborgarstofu.

Stærstu hótel landsins voru annaðhvort fullbókuð eða með örfá herbergi laus og sammælast forsvarsmenn þeirra um að erlendum ferðamönnum hafi fjölgað miðað við sama tíma í fyrra.

Algengasti dvalartíminn er þrír til fjórir dagar og voru flestir að tínast inn á hótelin í fyrradag og í gær.

Jóhann Sigurólason, móttökustjóri á Grand Hótel, segir bókanir ganga vonum framar, enda allt uppbókað á hótelinu yfir áramót.

„Viðskiptin ganga mjög vel hjá okkur eins og víðast hvar. Hér er allt fullt," segir Jóhann. „Þetta eru mestmegnis útlendingar, ætli rúmlega helmingurinn sé ekki Bretar og Þjóðverjar."

Jóhann finnur töluverða aukningu í ferðamannastraumi frá því í fyrra. Valgerður Ósk Ómarsdóttir hjá Hótel Sögu tekur í sama streng og segir hótelin í landinu virðast vera vinsælli ár frá ári. Fréttablaðið hafði einnig samband við forsvarsmenn Hilton og Icelandair hótela og Hótel Borg, og fékk þau svör að lítið sem ekkert væri laust hjá þeim. Þar er tekið undir orð Jóhanns og Valgerðar varðandi aukninguna milli ára og flestir gestirnir séu erlendir.

Í tilkynningu frá Höfuðborgarstofu segir að ferðavefsvæði CNN hafi sett Reykjavík tvisvar í röð á lista yfir mest spennandi jólaborgir í heimi. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×