Innlent

Þakkar viðbrögðum björgunarmanna að ekki fór verra

Gísli Óskarsson og Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Eldur kviknaði um borð í humarbátnum Maggý frá Vestmannaeyjum í morgun eftir að leki hafði komið að skipinu. Sjö menn voru um borð og þakkar skipstjórinn snörum handtökum björgunarsveitarmanna að ekki fór verr og að engan hafi sakað.

Mikill leki kom að skipinu skömmu eftir að Maggý hafði snúið aftur á miðin eftir að hafa landað í Vestmannaeyjahöfn. Þegar sjórinn náði að rafmagnstöflu í vélarrúminu kviknaði eldur og mikill reykur gaus upp.

„Allt í einu fór brunakerfið í gang og drapst á vélinni," segir Gunnar Friðriksson, skipstjóri á Maggý VE.

Gunnar segir að vélstjórinn hafi brugðist hárrétt við, hann hafi lokað öllum loftinntökum og þannig náð að kæfa eldinn sem náði því aldrei upp úr vélarrúminu.

Aðspurður hvort menn hafi verið í hættu svarar Gunnar: „Það skapast alltaf hætta þegar svona gerist út á sjó. Það var komið fullt af sjó í vélarrúmið og eldurinn kafnaði fljótt. Við komumst fyrir lekann þegar björgunarmenn komu um borð og dældu úr vélinni."

Að sögn Gunnars liggur enn ekki fyrir hvað orsakaði lekann. Honum er efst í huga þakklæti til þeirra sem stóðu að björguninni en um fimmtán mínútum eftir að Gunnar kallaði eftir aðstoð var hjálpin komin.

„Þau voru allveg gífurlega snögg. Þeir hefðu ekki verið fljótari á slökkviliðsbíl upp í bæ. Stóri Örn var fyrstur á staðinn frá Rib Safari."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×