Innlent

Líkir gögnum Íra um dreifingu markríls við skáldskap

Höskuldur Kári Schram skrifar
Össur Skarphéðinsson, utanríkisráðherra, líkir vísindagögnum írskra stjórnvalda um dreifingu makríls við Ísland við skáldskap, enda byggi gögnin ekki á rannsóknum innan íslensku lögsögunnar. Hann efast um að Evrópusambandið og Norðmenn muni fallast á kröfu Íra um refsiaðgerðir gegn Íslandi.

Írsk stjórnvöld vilja að Evrópusambandið og Norðmenn beiti íslendinga efnahagslegum þvingum vegna makríldeilunnar. Írar saka Íslendinga og Færeyinga um ofveiðar og máli sínu til stuðnings hafa þeir lagt fram gögn sem eiga sýna að minna sé um makríl við Ísland núna en í fyrra.

Össur Skarphéðinsson, utanríkisáðherra, dregur þessar tölur í efa.

„Í fyrsta lagi þá er ekkert hægt að segja um það fyrr en við höfum lokið okkar rannsóknarleiðangri. Það verður ekki fyrr en í lok næsta mánaðar. Í öðru lagi þá hafa Írar engin gögn innan úr íslensku efnahagslögsögunni - svo að mér sé kunnugt um - sem renna stoðum undir þetta og í þriðja lagi þá sá ég útbreiðslukortin sem að þeir létu fylgja sinni greinargerð og þær upplýsingar sýndust mér vera út í hött."

Í skýrslu Íra segir meðal annars að makríll hafi ekki komið upp að suðvesturhorni landsins.

„Nú ég bý nú við sjóinn og allt síðasta sumar þá fylgdist ég með makrílnum vaða beint fyrir utan stofugluggann minn við Ánanaustin, þannig að ég tel að þeir séu að fiska í mjög gruggugu vatni. Þessar staðhæfingar þeirra eru ekki á rökum byggðar og það er mjög óvísindalegt hjá þeim að leggja þetta fram áður en þessar upplýsingar eru komnar frá okkur."

„Það er hugsanlegt að þarna blandist hið skáldræna blóð keltanna sem búa í grannlandi okkar Írlandi, ég skal ekkert segja um það segja."

Össur telur ólíklegt að Evrópusambandið og Norðmenn grípi til þvingana gegn Íslandi vegna deilunnar.

„Ég býð eftir að sjá vini okkar Norðmenn taka þátt í slíku og ég á eftir að sjá Evrópusambandið grípa til slíkra ráða — það væri lögbrot."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×