James Holmes, sem grunaður er um að hafa staðið að baki einni mannskæðustu skotárás seinni tíma í Bandaríkjunum, hefur ítrekað reynt að svipta sig lífi í fangaklefa.
Holmes er gefið að sök að hafa myrt 12 manns og sært 58 aðra í kvikmyndahúsi í Colorado fyrr á þessu ári. Árásin átti sér stað á sýningu kvikmyndarinnar The Dark Knight Rises.
Holmes átti að mæta fyrir dóm í dag. Fresta þurfti réttarhaldinu vegna veikinda Holmes. Fréttamiðillinn The Denver Post hefur eftir starfsmanni í Arapahoe-fangelsinu að Holmes hafi skaðað sjálfan sig með að lemja höfði sínu utan í vegg.
Frá því að árásin átti sér stað í júlí hefur Holmes verið í einangrun.
Þegar hann var fyrst leiddur fyrir dómara í Centennial var Holmes með appelsínugult hár. Hann virtist vera fjarhuga og óviss um hvað fór fram.
Saksóknari mun að öllum líkindum fara fram á dauðarefsingu yfir Holmes.
Hefur ítrekað reynt að svipta sig lífi
