Innlent

Ólafur hyggst ekki bjóða sig fram aftur

Ólafur Ragnar Grímsson
Forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson, tilkynnti í nýársávarpi sínu að hann hyggðist ekki bjóða sig fram í næstu forsetakosningum.

„Þó árin hafi liðið hratt er samt liðinn langur tími frá því ég ávarpaði ykkur fyrst úr þessum sal," sagði Ólafur og kvaðst hafa leitast við að sinna forsetaembættinu eftir bestu samvisku. Þær ákvarðanir sem hann hefur sem forseti þurft að taka hafa tíðum verið erfiðar, en jafnframt veitt honum mikla gleði.

Undanfarið hefur hann að vonum íhugað vandlega ólík sjónarmið og velt á ýmsan hátt fyrir sér hvort hann vilji sinna forsetaembættinu áfram. Aðstæður þjóðarinnar telur hann slíkar að hann geti betur þjónað þjóðinni ef val hans á verkefnum fer aðeins eftir hans eigin vilja. Þegar skyldur embættistins hvíli ekki lengur á herðum hans opnist nýjar leiðir í þjónustu við vísindin, við að kynna græna orku og auka tækifæri ungs fólks svo fátt eitt sé nefnt. Þar telur hann kröftum sínum betur varið.

„Ákvörðun mín felur því ekki í sér kveðjustund, heldur upphaf að nýrri þjónustu sem ég get innt af hendi ríkari af þeirri reynslu sem forsetaembættið færir hverjum þeim sem gegnir því," sagði Ólafur og þakkaði að lokum fyrir það traust sem Íslendingar hafa sýnt honum gegnum árin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×