Innlent

Fjallaleiðsögumenn sitja naktir fyrir - ræða nú dagatal

Kynningarstarfsemi Íslenskra fjallaleiðsögumanna náði nýjum hæðum í dag.
Kynningarstarfsemi Íslenskra fjallaleiðsögumanna náði nýjum hæðum í dag. mynd/Íslandsflakkarar
Það er aldrei róleg stund hjá leiðsögumönnum ferðaskrifstofu Íslenskra fjallaleiðsögumanna. Þegar markaðsfulltrúinn bað um ljósmynd af piltunum ákváðu þeir að sýna honum hvernig atvinnumenn í fjallaferðum gera hlutina.

„Það voru bara strákar á vaktinni," segir James McEwan, leiðsögumaður. „Ívar Finnbogason, yfirmaður, vildi fá mynd af okkur öllum. Við ræddum málið í nokkra stund og komust loks að niðurstöðu."

Ljósmyndin birtist seinna um daginn á Fésbókarsíðu ferðaskrifstofunnar. Á myndinni má sjá tólf glæsilega karlmenn á adamsklæðunum en einn af þeim er starfsmaður á skrifstofu fyrirtækisins. „Þetta virtist bara vera nokkuð góð hugmynd," segir James og bætir við að Ívar yfirmaður hafi litist vel á myndina.

Myndin er tekin við þjónustumiðstöð Íslenskra fjallaleiðsögumanna og Íslandsflakkara í Skaftafelli.

„Við lögðum rútum fyrir framan skálann, fórum inn og rifum okkur úr fötunum. Stukkum síðan út og myndin var tekin."

Eins og áður segir sitja tólf karlmenn fyrir á ljósmyndinni. Fréttamanni lék forvitni á að vita hvort að þeir hefðu í huga að setja saman dagatal með svipuðu sniði.

„Það gæti farið svo," segir James hlæjandi. „Við höfum reyndar fengið fyrirspurnir um það frá skrifstofunni. Helst vildum við fá stelpurnar sem vinna á Sólheimajökli til að taka þátt."

Hægt er að nálgast ferðaskrifstofuna Íslenskra fjallaleiðsögumanna hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×