Innlent

Ríkiskaup vilja ógilda úrskurð kærunefndar og segja upp rammasamningi

Ríkiskaup hafa ákveðið að höfða mál til ógildingar úrskurðar kærunefndar útboðsmála sem komst að þeirri niðurstöðu í ágúst að Ríkiskaup hafi brotið gegn lögum um opinber innkaup þegar tilboði Icelandair í útboði um flugsæti til og frá Íslandi í mars á síðasta ári var tekið.

Ríkiskaup tók báðum tilboðunum og gerði rammasamning við bæði félögin, en ríkisstofnanir hafa átt sáralítil viðskipti á grundvelli samningsins við Iceland Express. Þá ákvað ríkið þrátt fyrir mótmæli Iceland Express að setja ekki skorður á punktasöfnun ríkisstarfsmanna með miðakaupum hjá Icelandair, sem skekkir mjög samkeppnisstöðuna að mati IE að mati kærunefndarinnar.

Í tilkynningu frá Ríkiskaupum kemur fram í máli Halldórs Ó. Sigurðssonar, forstjóra Ríkiskaupa að „markmið Ríkiskaupa er alltaf að leita að hagstæðustu kjörum fyrir ríkið. Markmið rammasamningsins um flugsæti er að koma til móts við þarfir kaupenda um hagstæð flugfargjöld og að tryggja nægjanlega tíðni ferða og áreiðanleika þannig að spara megi dagpeninga- og gistikostnað."

Útboðið náði til fimm algengra áfangastaða; Kaupmannahöfn, London, Brussel, New York og Boston. Samið var við Icelandair um alla fimm áfangastaðina og við Iceland Express um fjóra af fimm áfangastöðum þar sem félagið bauð ekki flug til Brussel. Samið var til eins árs með heimild til framlengingar tvisvar sinnum í eitt ár í senn. Á samningstímabilinu hætti Iceland Express að fljúga til Boston og New York þannig að félagið býður nú eingöngu upp á flug til London og Kaupmannahafnar í rammasamningi.

Svo segir í tilkynningunni að ljóst sé að útboðið hefur ekki skilað tilætluðum árangri og því munu Ríkiskaup nýta uppsagnarákvæði samningsins og hefur honum verið sagt upp með tilskyldum fyrirvara. Hafinn er undirbúningur að nýju útboði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×