Innlent

Tvær létust af völdum leghálskrabbameins

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Ragnheiður Haraldsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélagsins.
Ragnheiður Haraldsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélagsins. Mynd/Valli
Tvær ungar konur létust af völdum leghálskrabbameins á síðasta ári. Forstjóri Krabbameinsfélagsins segir það mikið áhyggjuefni að dregið hafi úr því að konur komi í krabbameinsleit.

Helmingi fleiri konur greindust með leghálskrabbamein á alvarlegu stigi á árunum 2008 til 2012 miðað við árin 1998 til 2002. Talið er að ástæðan sé meðal annars sú að færri konur mæta í reglulega krabbameinsleit en áður.

„Þá hefur dregið úr mætingu í leitina og það hefur dregið úr henni ekki síst hjá ungum konum og það er mikið áhyggjuefni," segir Ragnheiður Haraldsdóttir, forstjóri Krabbameinsfélagsins.

„Því miður er það þannig að krabbamein greinast núna á efri stigum en oft var nú áður og konur hafa þá stundum þá ekki mætt í leitina eða ekki látið taka strok frá leghálsi í mörg ár á undan. Það er því miður oft þannig," segir Ragnheiður og veit dæmi þess að oft hafi liðið áratugur án þess konur mæti í leit.

Á hverju ári látast að meðaltali tvær konur hér á landi af völdum leghálskrabbameins. Á síðasta ári létu tvær konur sem aðeins voru 24 og 26 ára lífið eftir baráttu við krabbameinið. Þær tvær eru þó ekki dæmi um konur sem ekki mættu reglulega í krabbameinsleit.

„Ef að þetta hins vegar greinist á fyrstu stigum þá er leikurinn mun auðveldari og hægt er að koma í veg fyrir flest krabbamein. Það er svo sérstakt með krabbamein í leghálsi að það er hægt að finna forstig. Það er ekki einu sinni orðið krabbamein þegar hægt er að finna vísbendingar. Þess vegna er svo mikið í húfi að við konur mætum og notum þetta frábæra tækifæri sem að okkur býðst og við notum það," segir hún.


Tengdar fréttir

Reglubundin leghálskrabbameinsleit bjargar mannslífum

Kona sem greindist með leghálskrabbamein segir það bjarga lífi kvenna að fara nógu snemma í krabbameinsleit. Hún hafi verið kærulaus og dregið það enda hafi henni fundist fráleitt að jafn ung kona og hún gæti fengið slíkt krabbamein.

Sífellt fleiri konur greinast með leghálskrabbamein

Sífellt fleiri konur greinast með leghálskrabbamein á alvarlegra stigi en áður. Þannig þurfa tvöfalt fleiri konur að fara í geisla- eða lyfjameðferð vegna krabbameinsins nú en fyrir áratug. Yfirlæknir segir ástæðuna þá að færri konur mæti reglulega í krabbameinsleit.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×