Innlent

Sífellt fleiri börn vilja fermast borgaralega

Mynd/Vilhelm
„Börnunum hefur fjölgað gífurlega hratt á síðustu fimm árum," segir Hope Knútsson, formaður Siðmenntar. „Við vitum ekki hvers vegna þetta gerist svona hratt, við erum ekki að gera neitt öðruvísi. Þetta verður sennilega bara þekktara með árunum."

Í ár munu 214 börn fermast borgaralega á Íslandi og eru það nær helmingi fleiri en árið 2007, þegar þau voru 109 talsins. Siðmennt, félag siðrænna húmanista á Íslandi, hefur staðið fyrir borgaralegum fermingum frá því árið 1989, þegar 16 börn tóku þátt. Gjald fyrir fermingarfræðslu og athöfnina sjálfa er 34 þúsund krónur.

Guðbjörg Jóhannesdóttir, formaður Prestafélags Íslands, segir það koma sér verulega á óvart að þau börn sem kjósi að fermast borgaralega séu ekki fleiri en raun ber vitni.

„Miðað við þá umfjöllun sem hefur verið mætti skilja að það væru fleiri þúsund börn að fermast borgaralega á hverju ári," segir Guðbjörg. „Og að fækkunin hjá þjóðkirkjunni væri því að sama skapi mun meiri."

Guðbjörg Jóhannesdóttir
874 skráðu sig úr þjóðkirkjunni á síðustu þremur mánuðum síðasta árs. Guðbjörg telur þó ekki að það endurspegli á nokkurn hátt fjölda þeirra barna sem vilji fermast hjá kirkjunni.

„Ég er að mörgu leyti mjög hissa á þessu. Miklar úrsagnir hér í borginni hafa ekki rímað við fækkun fermingarbarna," segir hún.

Biskupsstofa hefur aldrei haldið utan um fjölda fermingarbarna innan þjóðkirkjunnar og því er ekki hægt að sjá þróunina þar milli ára. Guðbjörg er prestur í Hafnarfjarðarkirkju og þar munu 130 til 140 börn fermast í ár.

Hún segir fjöldann hafa haldist svipaðan milli ára og gagnrýnir að Biskupsstofa skuli ekki halda utan um heildarfjölda fermingarbarna á landinu.

Hope Knútsson.
„Þetta er í ólagi hjá þeim og þarf að laga. En ég tel breytingarnar hafa að mörgu leyti verið ótrúlega litlar."

Fræðslugjald fyrir fermingarbörn í þjóðkirkjunni er 9.300 krónur.

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×