Innlent

iTaxi er íslenskt app til að panta leigubíla

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Nýtt íslenskt app gerir fólki kleift að panta leigubíl með því að senda boð beint í símann hjá leigubílsstjóra í nágrenninu. Höfundur appsins sem einnig starfar sem leigubílstjóri segir það geta bætt samkeppnisstöðu leigubílsstjóra.

Notkun á iTaxi appinu hófst fyrir helgi en með því getur hver sem er notað snjallsímann sinn til að finna leigubíl í nágrenninu og fylgst með honum keyra til sín.

„Fyrir ári síðan var ég að keyra leigubíl og hafði heyrt um að þetta væri hægt. Ég fann forrit í Kanda sem heitir Taxi now og reyndi að hafa samband við þá til að reyna að fá það til Íslands. En þeir voru ekki til í það þannig ég ákvað að búa þetta bara til sjálfur," segir Jón Norðfjörð, höfundur iTaxi.

Leigbílstjórar fara í gegnum umsóknarferli áður en þeir fá aðgang til að tryggja öryggi en sex leigubílstjórar eru nú þegar byrjaðir að nota appið.

„Þetta í raun og veru eykur okkar samkeppnishæfni á þessum markaði. Ég meina rúturnar eru komnar með öpp, þannig af hverju ekki við?" spyr Jón.

Hann segir svipuð öpp vera komin í flestar borgir í heiminum en iTaxi er hægt að nota um allan heim.

„Þannig að náttúrulega draumur okkar til framtíðar er að þú þurfir bara eitt app. Þannig ef þú ferðast til New York eða svoleiðis notaru bara sama app," segir Jón.

Forritið leitar að næsta lausa leigubíl og notandinn pantar hann persónulega með forritinu.

Hægt er að fylgjast með bílnum á korti og vera tilbúinn þegar hann kemur á staðinn. Svo þegar bíllinn er kominn fær maður skilaboð um það og getur sest inn og notið ferðarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×