Innlent

Fyrirmyndarbörn af bestu kynslóðinni hingað til

Jóhanna Margrét skrifar
Krakkar í Hagaskóla eru sammála um að þau eru lítið úti eftir klukkan tíu á kvöldin, borða ekki oft nammi og hafa aldrei orðið vitni að einelti. Það er í samræmi við niðurstöður nýlegrar könnunar sem gerð var meðal allra nemenda í efstu bekkjum grunnskóla.

Könnunin Ungt Fólk 2012 var framkvæmd meðal ellefu þúsund nemenda í efstu bekkjum grunnskóla í febrúar síðastliðnum. Könnunin beinir athygli sinni að líðan og lífi unglinga, svo sem heilsu, námi og neyslu og hefur hún verið framkvæmd reglulega í tuttugu ár.

Þegar litið er á vímuefnanotkun unglinga síðustu fimmtán ár má sjá að árið 1998 höfðu yfir fjörutíu prósent þátttakenda orðið ölvuð á síðustu þrjátíu dögum en einungis sjö prósent í dag. Sömuleiðis hefur ungmennum sem reykja daglega fækkað úr yfir tuttugu prósentum í þrjú prósent í ár.

Þá eyða krakkar nú meiri tíma með foreldrum sínum utan skóla en áður og hefur aukið foreldraeftirlit

leitt til þess að krakkarnir eru sjaldnar úti seint á kvöldin samanborið við síðustu ár.

Þegar fréttakona spurði krakka í félagsmiðstöðinni Frostaskjóli hvort þau væru oft úti lengur en til tíu á kvöldin kváðu þau flest nei við, sögðu að lögin bönnuðu það eða nefndu að einstaka sinnum mættu þau vera lengur úti á sumrin.

Annað sem kemur fram í könnuninni er að einelti hefur dregist saman og höfðu einungis níu prósent krakka í níunda og tíunda bekk tekið þátt í einelti eða ofbeldi á síðustu tólf mánuðum fyrir könnunina.

Krakkarnir í Frostaskjóli sögðust ekki hafa tekið eftir einelti í skólanum og í það minnsta aldrei séð nokkurn verða fyrir einelti beinlínis.

Þegar kemur að neyslu tiltekinnar fæðu hefur sælgætisneysla drengja aðeins dregist saman á meðan neysla á ávöxtum og grænmeti hefur tekið stökk. Krakkarnir í Frostaskjóli segjast ekki borða nammi á hverjum einasta degi.

Í ritinu Ungt fólk 2012 kemur einnig fram að áfengisneysla hafi dregist mjög saman meðal ungmenna að undanförnu sem og reykingar.

Krakkarnir í Frostaskjóli eru af þessum sökum sannfærð um að þau séu betri kynslóð en þær sem á undan fóru.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×