Innlent

Börn eru uppnumin af Ólympíuleikum fatlaðra

BBI skrifar
Jón Margeir Sverrisson, heimsmethafi í sundi, er nýjasta Ólympíuhetja Íslendinga.
Jón Margeir Sverrisson, heimsmethafi í sundi, er nýjasta Ólympíuhetja Íslendinga. Mynd/Getty
Börn í Bretlandi eru upp til hópa heilluð af Ólympíuleikum fatlaðra sem fram fara í landinu um þessar mundir. Mörg þeirra telja þá Ólympíuleika ívið merkilegri en hina upprunalegu Ólympíuleika. Þetta kemur fram í frétt sem birtist í blaðinu The Guardian í dag.

„Þessir leikar eru enn merkilegri," segir ungur drengur í samtali við fréttamann og annar bætir við „Það er erfiðara að keppa í Ólympíuleikum fatlaðra heldur en þeim venjulegu - það að vera fatlaður hlýtur að gera allt miklu erfiðara."

Rætt var við fjölda barna sem hafa að undanförnu fylgst með mismunandi keppnisgreinum og skotist á milli keppnisstaða í Ólympíuþorpinu. Öll voru þau snortin af leikunum og sögðu að hinir fötluðu íþróttamenn brýndu venjulegt fólk til dáða og væru enn meira hvetjandi fordæmi en venjulegir íþróttamenn á Ólympíuleikum. „Þau minna okkur á að það er allt hægt," sagði eitt barnið.

Börnin sammælast einnig um að það þyki töff að fylgjast með Ólympíuleikum fatlaðra í skólanum. „Það verða allir að tala um leikana. Hver fór hvert og sá hvað," segir eitt barnið.

Og foreldrar eru ekki síður ánægðir með þetta aðdáunarverða, fatlaða íþróttafólk. „Nú hef ég fundið fyrirmyndir fyrir börnin mín sem ég vil að þau líti upp til. Ekki venjulegu hákarlana í þessum heimi," segir ein móðirin í samtali við fréttamann The Guardian.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×