Innlent

Ósáttir við breytingar í Heiðmörk

Hestamenn í Víðidal Fáksfélagar segjast sendir út í jaðar útivistarsvæðisins í Heiðmörk með nýju skipulagi.fréttablaðið/anton
Hestamenn í Víðidal Fáksfélagar segjast sendir út í jaðar útivistarsvæðisins í Heiðmörk með nýju skipulagi.fréttablaðið/anton
Stjórn Fáks blæs nú til sóknar gegn fyrirhuguðum breytingum á deiliskipulagi Heiðmerkur. „Þar eru hestamenn settir til hliðar og ekki virt áratuga hefð hestamanna um notkun svæðisins til útivistar,“ segir stjórn Fáks í ákalli til félagsmanna.

„Hestamenn eru útilokaðir frá stórum hluta svæðisins í skipulaginu, eina heildstæða leiðin í núverandi drögum er um 20 kílómetrar og því ljóst að skipulagsdrögin eru ekki að mæta almennri notkun hestamanna,“ útskýrir stjórnin sem kveðst skora á alla sem eru ekki sammála þessu deiliskipulagi að mótmæla því hjá Reykjavíkurborg. Sérstakt staðlað mótmælabréf er hægt að nálgast á heimasíðu Fáks. Auk þess hafa verið lagðir fram undirskriftalistar í öllum hestavörubúðum á höfuðborgarsvæðinu og í Reiðhöllinni í Víðidal.

Málið var einnig tekið fyrir á félagsfundi hjá Fáki sem harmaði að ekki væri tekið tillit til ýtarlegra athugasemda hestamanna. „Útivistarhópum, sem nýta Heiðmörk, er stórlega mismunað í þessum tillögum þar sem aðgengi hestamanna er verulega skert þrátt fyrir áratuga hefð fyrir notkun svæðisins til útivistar,“ sagði félagsfundur Fáks. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×