Innlent

Búbót af rekavið á Ströndum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Rekaviður er ennþá búbót hjá bændum í Árneshreppi sem segjast ekki hafa undan við að saga rekavið niður í klæðningar, gólffjalir og girðingarstaura. Hlunnindabúskapur hefur frá fyrstu tíð verið þáttur í lífsafkomunni í Árneshreppi og í gegnum aldirnar hafði rekinn mikla þýðingu.

Inni í skemmu á Litlu-Ávík eru bræðurnir Sigursteinn Sveinbjörnsson og Jón Guðbjörn Guðjónsson búnir að ræsa stórviðarsögina. Hér eru sagaðir rekaviðardrumbar.

Þegar Sigursteinn er spurður hversvegna fólk vilji timbur úr rekavið segir hann að það endist betur. Saltið virki sem fúavörn og sérstaklega endist girðingarstaurar úr rekavið mikið betur en innfluttar spírur.

Í Litlu-Ávík má sjá hús klædd með rekavið og við tökum líka efir því að þar rýkur úr strompnum. Verið er að brenna rekaviðarkurl til að kynda upp húsið og þannig sparast húshitunarkostnaður. Sigursteinn segist saga mikið fyrir sumarhúsaeigendur sem vilja klæða bústaðina með rekavið, og nota hann sem gólffjalir.

En skyldu þeir græða mikið á rekaviðnum?

„Nei, ég er ekki að segja að við græðum mikið," svarar Sigursteinn hlæjandi. „En það er búbót, það er búbót."



Tengdar fréttir

Finnst dásamlegt að vera í Árneshreppi

Kynslóðaskipti á tveimur bæjum í Trékyllisvík og fjölgun barna í skólanum á Finnbogastöðum hafa kveikt vonarneista um framtíð byggðar í Árneshreppi á Ströndum. Þetta kom fram í þættinum "Um land allt" á Stöð 2 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×