Innlent

Vopnfirðingar óttast um sitt heldra fólk

Vopnfirðingar eru uggandi þar sem málefni um búsetu aldraðra og framtíð sjúkraliða eru í lausu lofti þessa dagana.
Vopnfirðingar eru uggandi þar sem málefni um búsetu aldraðra og framtíð sjúkraliða eru í lausu lofti þessa dagana.
Starfsmenn á hjúkrunarheimilinu Sundabúð á Vopnafirði eru uggandi en yfirmenn Heilbrigðistofnunar Austurlands tilkynntu starfsmönnum hjúkrunarheimilisins, á fundi sem boðað var til 26. júní síðastliðinn, að þeim yrði sagt upp. Þetta segir Steingerður Steingrímsdóttir, formaður stjórnar Austur-landsdeildar Sjúkraliðafélags Íslands.

Ástæðan er sú að breyta á rekstrarfyrirkomulagi Sundabúðar sem í framtíðinni mun einungis bjóða upp á heimahjúkrun ef af þessum áformum verður. Tólf sjúkraliðar starfa í Sundabúð. ?Við höfum ekkert heyrt í þeim síðan þetta var tilkynnt,? segir Steingerður. ?Það er náttúrulega sárt að missa þessi störf en sárar svíður okkur undan því að missa þessa þjónustu úr byggðarlaginu. Það er alltaf sorglegt þegar verið er að skerða þjónustuna við þá sem síst eiga það skilið,? segir hún.

Stjórn Austurlandsdeildar sendi frá sér ályktun nýverið þar sem þessum áformum er mótmælt og skorað á Heilbrigðisstofnun Austurlands, Velferðarráðuneytið og sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps að búa svo um hnútana að íbúar á hjúkrunardeild Sundabúðar þurfi ekki enn einu sinni að búa við þau ótryggu búsetuskilyrði sem af þessu hljótast. Ellefu rúm eru á hjúkrunardeildinni.

Þorsteinn Steinsson, sveitarstjóri Vopnafjarðarhrepps, segir málið leggjast þungt á íbúa svæðisins. ?Við höfum náttúrulega bullandi áhyggjur af því hvernig þessu reiðir af og viljum númer eitt, tvö og þrjú að þessi þjónusta verði sem allra best á svæðinu. Það er óþolandi fyrir þá sem þiggja þjónustuna og svo fyrir starfsfólkið að búa við þessa óvissu. En það er verið að vinna að úrlausn mála í samvinnu Velferðarráðuneytis, Heilbrigðisstofnunar Austurlands og Vopnafjarðarhrepps.?

Vopnafjarðarhreppur hefur lýst yfir áhyggjum af því ef skerða á þjónustu við aldraða sem þurfi umönnunar við og af því hvað verði um starfsmenn. Engu að síður segir í fundargerð hreppsnefndar frá 5. júlí síðastliðnum að nauðsynlegt sé að skoða möguleika á breyttu rekstrarfyrirkomulagi hjúkrunarheimilisins. Þess er þó krafist að sú breyting feli ekki í sér lakari þjónustu.jse@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×