Innlent

Þarf ekki að greiða vask af lyftum fyrir fatlaða

BBI skrifar
Mynd/Getty
Lögum samkvæmt bar tollstjóra að endurgreiða virðisaukaskatt af tveimur lyftum fyrir fatlað fólk sem sveitarfélag fékk að gjöf til nota í sundlaug. Þetta var niðurstaða Umboðsmanns Alþingis í máli gefandans.

Einstaklingur gaf sveitarfélagi tvær lyftur að verðmæti rúmlega þriggja milljóna króna með þeim orðum að þær væru hugsaðar fyrir fatlaða sundlaugargesti. Tollstjóri neitaði einstaklingnum um endurgreiðslu virðisaukaskatts af lyftunum sem kvartaði í kjölfarið við Umboðsmann Alþingis.

Í lögum voru aftur á móti undanþáguákvæði þess efnis að endurgreiða skyldi virðisaukaskatt af búnaði sem mannúðar- og líknarstofnanir fengu að gjöf eða keyptu fyrir styrkfé. Umboðsmaður leit heildstætt á málið og taldi ljóst að lyfturnar væru aðeins ætlaðar fötluðum. Hann sagði einnig að sveitarfélögum væri skylt að veita fötluðum einstaklingum ýmiss konar þjónustu og stundum væri fært að nýta almennar stofnanir sveitarfélagsins til þess.

Heilt á litið taldi Umboðsmaður að undanþáguákvæðið næði yfir gjöfina á sundlaugalyftunum. Því var óheimilt að synja um endurgreiðslu virðisaukaskatts.

Settur Umboðsmaður mæltist því til þess að málið yrði tekið til nýrrar afgreiðslu og beinir þeim tilmælum til ríkistollanefndar að hafa umrædd sjónarmið framvegis í huga við afgreiðslu mála.

Hér má nálgast álit Umboðsmanns í heild.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×