Innlent

Laumufarþegar ógna öryggi starfsfólks

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Eimskip vill að stjórnvöld bregðist við ítrekuðum tilraunum hælisleitenda til að smygla sér um borð í skip. Félagið telur öryggi starfsfólks ógnað og hefur sent innanríkisráðherra bréf vegna málsins. Þrír voru handteknir í nótt eftir slíka tilraun í Reykjavíkurhöfn.

Mennirnir þrír laumuðu sér um borð í skip við Miðbakkann í Reykjavíkurhöfn. Lögreglan telur að þeir hafi ætlað að reyna að komast til Bandaríkjanna en skipið, sem er rannsóknarskip, er þaðan. Mennirnir hafa allir reynt áður að smygla sér úr landi.

Tilraunum hælisleitenda til að lauma sér úr landi hefur fjölgað undanfarið. Um síðustu helgi komust tveir menn um borð í flugvél Icelandair á Keflavíkurflugvelli. Þá hafa hælisleitendur reglulega reynt að lauma sér um borð í flutningaskip sem eru á leið til Bandaríkjanna og Kanada. Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips, segir tilraunum hafa fjölgað verulega síðustu tvo mánuði.

,, Þær tilraunir sem við höfum lent í núna, frá því í maí þessu ári, þær eru orðnar sjö þar sem við höfum haft hendur í hári manna. Þar eru í kringum 17 einstaklingar sem koma að málum. Það er 17 hælisleitendur, í sumum tilfellum er það sami maðurinn oftar en einu sinni, " segir Ólafur og bætir við að ástandið hafi verið viðvarandi frá árinu 2009.

Eimskip hefur sent innanríkisráðherra bréf vegna málsins en fyrirtækið telur öryggi starfsfólksins ógnað.

,, Stjórnvöld verða að bregaðst við þessu einfaldlega vegna þess að okkar starfsfólk er ekki lengur öruggt í starfi því við vitum ekkert hvaða fólk þetta er. Við vitum ekkert hvaðan það kemur. Þetta geta verið einhverjir ofbeldismenn. Þetta geta verið einhverjir hælisleitendur. Við getum ekki boðið okkar starfsfólki upp á það að vera ekki í stakk búið til að takast á við þetta fólk sem kemur. Hingað til hefur þetta sem betur fer verið þannig að þessir menn hafa ekki verið að beita ofbeldi eða verið til trafala þegar verið er að fjarlægja þá af svæðinu en það getur allt eins breyst", segir Ólafur.

Þá segir hann Eimskip hafa þurft að leggja út í mikinn kostnað til að tryggja öryggi á svæðinu. ,, Hann hleypur alveg á tugum milljóna. Það hefur þurft að bæta við öryggismyndavélum og þurft að auka öryggi í kringum svæðið, " segir Ólafur

Jóhannes Tómasson upplýsingafulltrúi innanríkisráðuneytisins sagði í samtali við fréttastofu að verið sé að fara yfir flug- og siglingaverndarmál vegna þessara atvika. Fundað verði með viðeigandi aðilum sem fyrst meðal annars í kjölfar þess þegar Flugmálastjórn skilar skýrslu um atvikið á Keflavíkurflugvelli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×