Innlent

Kossaflens í eins kílós kókaínmáli

Úr dómssal Parið ýmist neitaði eða játaði sök eftir ákæruliðum.
Úr dómssal Parið ýmist neitaði eða játaði sök eftir ákæruliðum.
Par sem ákært er fyrir að skipuleggja innflutning á tæpu kílói af kókaíni til landsins í þremur hlutum játaði hluta sakarinnar við þingfestingu ákærunnar í Héraðsdómi Reykjaness í gær.

Miklir fagnaðarfundir urðu með parinu þegar það náði saman í dómsalnum og kysstist það innilega og ítrekað á meðan beðið var eftir dómaranum. Konan situr í varðhaldi í Kvennafangelsinu í Kópavogi en manninum var nýverið sleppt úr varðhaldi og hann úrskurðaður í farbann.

Konan, Giovanna Soffía Gabríella Spanó, játaði að hafa fengið móður sína til að flytja hingað 570 grömm af kókaíni sem falið var í ferðatösku. Móðirin er ekki ákærð í málinu. Konan neitar aftur á móti að bera ábyrgð á innflutningi á 350 grömmum af kókaíni frá Spáni og tilraun til að smygla 140 grömmum frá Danmörku.

Maðurinn, Magnús Björn Haraldsson, játar sök í síðastnefnda liðnum en neitar hinum tveimur. Burðardýrin í Spánarmálinu mættu ekki í héraðsdóm í gær.

Steinar Aubertsson, sem var eftirlýstur vegna málsins og var handtekinn í Hollandi fyrir tveimur vikum, er væntanlegur til landsins á næstunni. Búist er við að þá verði gefin út framhaldsákæra á hendur honum og honum þannig bætt inn í málið. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×