Innlent

Sex lentu í snjóflóði - mildi að ekki fór verr

Barðaströnd, Brjánslækur.
Barðaströnd, Brjánslækur.
„Ég hef aldrei séð annað eins," segir Barði Sveinsson, bóndi á Innri-Múla, nærri Patreksfirði, en hann lenti óvænt í snjóflóði síðdegis í gær ásamt fimm öðrum. Barði var að sækja sjö kindur sem voru í sjálfheldu á Fuglbergi í Fossdal á Barðaströnd.

Með í för var meðal annars sigmaður frá Patreksfirði. Ekki tókst að bjarga kindunum þar sem þær voru of styggar. Á bakaleiðinni ákvað hópurinn að stytta sér leið. Það fór þó ekki betur en svo að hengja gaf sig og úr varð snjóflóð sem var líklega um 130 sentímetra djúpt og 100 metra breitt. Barði segist hafa reynt að hlaupa inn með hlíðinni, en allt kom fyrir ekkert, snjóflóðið hrifsaði hann og föruneyti hans með sér.

„Ég kútveltist þarna um en ég sá þó alltaf skímuna," segir Barði sem náði að losa sig sjálfur úr flóðinu þegar það loksins staðnæmdist. Stúlka, sem var með þeim í för, þurfti hinsvegar aðstoð hinna við að losa sig.

Barði segir að það hafi líklega bjargað þeim að það var ekki meiri snjór í hengjunni. Hefði flóðið verið stærra hefði það hæglega getað kastað þeim fram af klettabrún sem var framundan.

Barði gerir ekki mikið úr upplifuninni. Hann segist þó aldrei hafa upplifað annað eins. „Þetta slapp," segir Barði einfaldlega um stálheppni hópsins.

Engum varð meint af í flóðinu. Þá þurfti ekki að kalla á aðstoð björgunarsveitarinnar til þess að aðstoða fólkið, sem kom sér sjálft til byggða.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×