Innlent

Brotasaga ríkisstjórnar gegn jafnréttislögum áhyggjuefni

Kristín Ástgeirsdóttir.
Kristín Ástgeirsdóttir.
„Auðvitað er þetta áhyggjuefni," svarar Kristín Ástgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Jafnréttisstofu, þegar hún er spurð hvort brotasaga ríkisstjórnar gegn jafnréttislögum sé ekki áhyggjuefni.

Kærunefnd jafnréttismála komst að þeirri niðurstöðu að Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra hafi gerst brotlegur við lögin þegar hann tók karlmann fram fyrir konu í starf sýslumanns á Húsavík. úrskurðurinn var kunngerður í dag, en það var RÚV sem greindi frá málinu í kvöldfréttum sínum.

Ögmundur er annar ráðherrann í ríkisstjórninni sem brýtur gegn lögunum en Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra var einnig fundin brotleg við lög um jafnrétti þegar hún réði karlmann í starf skrifstofustjóra hjá forsætisráðuneytinu í stað Önnu Kristínu Ólafsdóttur. Það eru aðeins tveir mánuðir síðan Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að ríkið skyldi greiða Önnu Kristínu hálfa milljón í miskabætur vegna málsins.

Kristín Ástgeirsdóttir segir að í báðum þessum tilfellum hafi brotið varðar ráðningu í starf á vegum ríkisins. „Og þetta sýnir auðvitað að hið opinbera verður að setja skotheldar reglur varðandi ráðningar."

Kristín bendir ennfremur á að Umboðsmaður Alþingis hafi gert athugasemdir við huglægt mat við ráðningar.

„Það verður eitthvað haldbært að standa á bak við slíkt mat," bætir Kristín við.

Spurð hvort þetta sé ekki vægast sagt óheppilegt fyrir ríkisstjórnina, og hvort það megi ekki gera ríkari kröfur til þessarar ríkisstjórnar um að standa sig í þessum málaflokki svarar Kristín: „Jújú. Almennt er þetta mjög óheppilegt. Ríkisstjórnin hefur sett jafnréttismálin á oddinn og eiga að ganga fram með góðu fordæmi."


Tengdar fréttir

Ögmundur braut jafnréttislög - réð karl en ekki konu sem sýslumann

Ögmundur Jónasson braut jafnréttislög þegar hann tók karl fram yfir konu í embætti sýslumanns á Húsavík. Þetta kom fram í fréttum RÚV í kvöld. Þar segir að kærunefndin jafnréttismála hafi komist að þeirri niðurstöðu að konan væri hæfari en karlinn í fjórum hæfnisþáttum af átta og jafnhæf í þremur.

Ögmundur telur niðurstöðu sína rétta þrátt fyrir úrskurð kærunefndar

"Ég tel niðurstöðuna okkar rétta,“ segir Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra, en fréttastofa RÚV greindi frá því í kvöld að kærunefnd jafnréttismála hefði komist þeirri niðurstöðu að ráðherrann hefði gerst brotlegur við jafnréttislög þegar hann skipaði karl í embætti sýslumannsins á Húsavík í lok síðasta árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×