Kuldamet í ágúst eru nú að taka við af hitametunum fyrr í mánuðinum og viðbúið er að ber hafi víða skemmst í næturfrosti undanfarna sólarhringa.
Frostið fór niður í 5,3 stig á Brúsastöðum í Vatnsdal í fyrrinótt, en það er mesta frost sem mælst hefur á landinu í ágúst síðan árið 1982, eða í 30 ár.
Sumstaðar hefur líka gránað í fjallatoppa norðaustanlands og þar gæti líka orðið slydda á láglendi á miðvikudag, sem þýðir að hálkublettir geta myndast á fjallvegum, þegar angi af kuldasvæðinu fyrir norðan land teygir sig aðeins inn á landið.
Opinbera kuldametið í ágúst er 7,5 stiga frost sem mældist í Sandbúðum á Sprengisandsleið í ágúst árið 1975, þannig að kuldametið í fyrrinótt á langt í að ná því.
Dvínandi líkur eru á að meðalhiti í mánuðinum slái nýtt met, eins og horfur voru á, en hann verður þó vel yfir meðallagi, að sögn Trausta Jónssonar veðurfræðings.
Ber hafa sjálfsagt víða spillst í næturfrostinu, einkum vegna þess hver erfitt er að tína þau ef frosið hefur á þeim.

