Innlent

Ferðamennirnir borða líka sveppi

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Framleiðsla Flúðasveppa er jöfn allt árið um kring, en á sumrin anna þeir ekki eftirspurn. Skýringin er einföld, segir framkvæmdastjóri fyrirtækisins, erlendir ferðmenn borða líka sveppi og markaðurinn stækkar.

Íslendingar borða mikið af sveppum en Flúðasveppir framleiða á bilinu tíu til tólf tonn af sveppum á viku allan ársins hring. Á sumrin eru þessir tugir tonna á mánuði hins vegar ekki nóg til að anna eftirspurn á sumrin.

„Á sumrin er náttúrlega meiri neysla. Bæði eru Íslendingar allir í fríi í lok júlí en svo fjölgar líka íbúunum. Ég var einmitt svona að giska á það hvort það væru hundrað eða hundrað og fimmtíu þúsund fleiri sem búa á Íslandi núna ef við tökum ferðamennina með. Þannig að það er 50 prósent aukning á landanum núna. Þetta fólk þarf að borða," segir Georg Ottósson, sveppabóndi á Flúðum.

Á þessum tíma árs eru því fluttir inn sveppir til að mæta eftirspurninni. Georg segir sveppaneyslu á Íslandi mikla.

„Hún er í rauninni í hlutfalli miklu hærri en á grænmeti og ávöxtum. Það kom kannski svolítið með pizzuævintýrinu fyrir tuttugu árum síðan. Síðan hefur þetta bara haldist. Við höfum reynt að halda okkar ímynd góðri og framleiða góða vöru. Ferskari verður hún ekki en svona beint frá bónda."

Hann segir Íslendinga borða mun meira af sveppum í dag en fyrir tuttugu og fimm árum þegar fyrirtækið var stofnað.

,,Þá voru framleidd fimm hundruð kíló á viku. Ég man sérstaklega eftir því að þegar framleiðslan var sex til sjö hundruð kíló á viku, þá var offramleiðsla. Þannig að þið sjáið breytinguna. Þetta er gríðarleg neyslubreyting á þessari vöru."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×