Innlent

Ölvaðir bílstjórar gerst sekir um manndráp

Farþegi eða ökumaður sem er ekki í bílbelti getur lent á öðrum í bílnum með höggþunga tveggja Afríkufíla í árekstri á miklum hraða.
Farþegi eða ökumaður sem er ekki í bílbelti getur lent á öðrum í bílnum með höggþunga tveggja Afríkufíla í árekstri á miklum hraða. Fréttablaðið/Rósa
Ökumenn sem aka undir áhrifum áfengis eða annarra vímugjafa og verða valdir að dauða annars hafa verið ákærðir fyrir manndráp, og fangelsisdómar hafa fallið vegna slíkra mála. Umferðarstofa hvetur aðstandendur ökumanna sem ætla af stað ölvaðir til að grípa í taumana.

Í samantekt Umferðarstofu kemur fram að ölvaðir ökumenn valda fimmta hverju banaslysi í umferðinni hér á landi. Þó áfengis-áhrifin séu oft ekki mikil geti afleiðingarnar verið hræðilegar.

Þá er bent á að allt tjón sem ölvaðir ökumenn valda getur lent á þeim sjálfum, enda eiga tryggingafélögin endurkröfurétt á ökumenn sem aka undir áhrifum vímugjafa.

Umferðarstofa minnir einnig á bílbeltanotkun. Lítill hluti ökumanna og farþega notar enn í dag ekki öryggisbelti. Ekki aðeins eru þeir sjálfir í meiri hættu lendi þeir í árekstri heldur geta þeir valdið öðrum mikilli hættu þegar þeir kastast til í bílnum.

Samkvæmt útreikningum Umferðarstofu getur 75 kílóa einstaklingur sem kastast til í bíl sem lendir í árekstri á 90 kílómetra hraða lent á samferðamanni sínum með um 10 tonna höggþunga. Það er sambærilegt við að lenda undir tveimur fullvöxnum Afríkufílum, segir í tilkynningu Umferðarstofu.

Þar er einnig áréttað að bílar með tengivagna mega ekki aka hraðar en á 80 kílómetra hraða á klukkustund, og brýnt fyrir ökumönnum að haga akstri þannig að sem auðveldast sé að taka fram úr þeim.

- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×