Innlent

Lögmaður í Vegas-málinu: "Búið að leiðrétta rangan dóm"

Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifar
Hæstiréttur sýknaði í dag Sigurþór Arnarsson sem var fyrir fimmtán árum sakfelldur fyrir að hafa orðið manni að bana á veitingastaðinn Vegas. Lögmaður mannsins segir með þessu búið að leiðrétta rangan dóm en saklaus maður hafi setið í fangelsi í átján mánuði.

Sigurþór var árið 1997 ákærður ásamt öðrum manni fyrir að hafa ráðist á mann á veitingastaðnum Vegas. Árásin leiddi til dauða fórnarlambsins. Á sínum tíma sýknaði Héraðsdómur Reykjavíkur Sigurþór. Málinu var svo vísað til Hæstaréttar Íslands sem að sakfelldi Sigurþór og dæmdi í tveggja ára og þriggja mánaða fangelsi. Sat hann inni í átján mánuði í fangelsi.

Hann kærði svo málið til Mannréttindadómstóls Evrópu sem komst að þeirri niðurstöðu að reglur um réttláta málsmeðferð hefðu verið brotnar. Málið var því aftur tekið upp fyrir íslenskum dómstólum. Lögmaður mannsins segir dóminn einstakan hér á landi og hafa mikla þýðingu fyrir skjólstæðing sinn.

„Ég myndi allavega segja að þetta sé rétt niðurstaða að það sé búið að leiðrétta rangan dóm sem að féll á sínum tíma. Hann er búinn að afplána dóminn og vera með þetta á bakinu allan þennan tíma," segir Bjarni Hauksson, hæstaréttarlögmaður og lögmaður Sigurþórs.

Hann telur líklegt að hann fari fram á bætur vegna fangelsisvistar sinnar.

„Það náttúrulega liggur fyrir að hann telst saklaus maður í dag og sat í fangelsi á sínum tíma," segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×