Erlent

Biðst afsökunar á alræmdum svörtum lista í Hollywood

Talið er að í handriti sínu að myndinni High Noon sé Carl Forman í raun að fjalla um ástandið í Hollywood á fimmta áratugnum.
Talið er að í handriti sínu að myndinni High Noon sé Carl Forman í raun að fjalla um ástandið í Hollywood á fimmta áratugnum.
Willie Wilkerson sonur stofnenda blaðsins Hollywood Reporter hefur beðist opinberlega afsökunar á föður sínum sem birti alræmdan svartan lista um fólk í Hollywood sem talið var hallt undir kommúnisma um miðja síðustu öld.

Með þessum lista föðurins, Billie Wilkerson, fór í hönd svartasta tímabilið í sögu Hollywood þar sem fleiri tugir leikstjóra, leikara og handritahöfunda voru algerlega útilokaðir frá allri vinnu við kvikmyndir. Þetta var á fimmta áratugnum en uppúr 1950 kom hin svokallaða Óameríska nefnd til sögunnar og nornaveiðar gegn meintum kommúnistum hófust á landsvísu.

Meðal þeirra sem lentu á þessum svörtu listum má nefna leikstjórann Edward Dmytryk, skáldkonuna Lillian Hellmann og leikarann Zero Mostel.

Handritshöfundurinn Carl Forman þurfti að flýja til Englands til að finna vinnu. Áður skrifaði hann handritið að myndinni High Noon einhverjum rómaðasta vestra sögunnar. Sú mynd fjallar um lögreglustjóra í smábæ sem allir bæjarbúar hafa snúið baki við því vá steðjar að. Talið er að myndin fjalli í raun um Hollywood á þessum tíma.

Zero Mostel lék í fimm kvikmyndum árið 1951 en síðan fékk hann ekki bitastætt hlutverk á þeim vettvangi fyrr en 1967 þegar Mel Brooks réð hann í gamanmyndina The Producers.

Willie segir að svarti listinn hafi verið hefnd Billie gagnvart Hollywood því honum hafi sjálfum ekki tekist að hasla sér völl sem kvikmyndaframleiðandi þar í borg.

Það voru ekki allir í Hollywood á þessum árum sem voru hrifnir á þessu framtaki Billie. Nefna má að leikararnir Humphrey Bogart og Lauren Bacall ásamt leikstjóranum John Huston og fleirum stofnuðu samtök til að berjast fyrir réttindum þeirra sem lentu á svarta listanum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×