Í dag eru 17 ár síðan snjóflóðið á Flateyri féll yfir bæinn. Snjóflóðið skall á íbúðarhúsum bæjarins þegar 45 manns voru þar inni. Ríflega helmingur þeirra lifði af en 20 manns létu lífið. Húsin sem lentu undir flóðinu höfðu áður verið talin utan hættusvæðis, en mikið fárviðri var á Vestfjörðum þennan dag.
„Maður hugsar til þessa dags með þá döpru staðreynd í huga að fjöldi fólks fórst og margir eiga um sárt að binda," segir Eiríkur Finnur Greipsson, íbúi á Flateyri, í samtali við fréttavef Bæjarins Besta á Ísafirði. Eiríkur var einn þeirra sem komst lífs af í snjóflóðinu.
„Húsið okkar fór í flóðinu, en við hjónin vorum heima með syni okkar tvo. Okkur var bjargað úr húsinu rúmum klukkutíma eftir að flóðið féll," segir Eiríkur.
Á þessum degi hverfur hugur fólksins á Flateyri iðulega til þessara aburða. Eiríkur segir að það sé ekki aðeins söknuður og tregi sem sé Flateyringum ofarlega í huga á þessum degi heldur einnig þakklæti. „Okkur var sýnd mikil ástúð og umhyggja í kjölfar þessa atburðar, bæði úr nágrannabyggðum og frá landsmönnum öllum, sem sýndu mikinn samhug," segir hann.

