Innlent

Á annan tug manna handteknir í Hafnarfirði

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Lögreglan yfirgefur vettvang í kvöld.
Lögreglan yfirgefur vettvang í kvöld.
Á annan tug manna voru handteknir í sameiginlegum aðgerðum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, embættis ríkislögreglustjóra, lögreglunnar á Suðurnesjum og lögreglunnar í Árnessýslu gegn vélhjólagenginu Outlaws, en einstaklingarnir voru handteknir í húsnæði samtakanna í Hafnarfirði og víðar.

Aðgerðirnir hófust fyrr í kvöld en í framhaldinu var framkvæmd húsleit í fyrrnefndu húsnæði og einnig víðar á höfuðborgarsvæðinu, sem og á Suðurnesjum og í Árnessýslu. Við húsleitirnar var m.a. lagt hald á ætlað þýfi, fíkniefni og margskonar eggvopn. Á áttunda tug lögreglumanna tóku þátt í aðgerðunum, sem voru nokkuð umfangsmiklar, auk starfsmanna tollgæslunnar sem aðstoðuðu við húsleitir með sérþjálfuðum hundum.

Flestir hinna handteknu eru meðlimir í vélhjólagenginu og hafa jafnframt áður komið við sögu hjá lögreglu. Hinir sömu voru færðir til vistunar í fangageymslum lögreglu, en yfirheyrslur munu standa fram á nótt og verður síðan framhaldið í fyrramálið. Óljóst er hvort krafist verður gæsluvarðhalds yfir einhverjum hinna handteknu, slíkt fer eftir framvindu rannsóknarinnar. Lögreglan segir að vegna rannsóknarhagsmuna sé ekki unnt að greina frá tilefni aðgerðanna á þessu stigi málsins.

Í fréttatilkynningu frá lögreglunni segir að ekki sé unnt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu en fleiri tilkynningar verði sendar um gang rannsóknarinnar eftir því sem henni vindur fram.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×