Innlent

Íslendingar í fangelsi vegna innflutnings á e-töflum

Erla Hlynsdóttir skrifar
Tveir íslenskir karlmenn hafa verið dæmdir í fangelsi í Danmörku fyrir innflutning á 25 þúsund e-töflum. Þeir sátu í gæsluvarðhaldi síðasta hálfa árið.

Fréttastofa sagði fyrst frá málinu í marsmánuði. Þá kom fram að mennirnir væu í varðhaldi og að annar þeirra hefði þegar játað. Þeir eru báðir á fertugsaldri og hafa verið búsettir í Kaupmannahöfn undanfarin ár.

Mennirnir voru handteknir á Kastrupflugvelli við komu frá Bretlandi í febrúar. Þeir höfðu þá í fórum sínum um fimm kíló af e-töflum, eða 25 þúsund töflur. Götuvirði efnanna á Íslandi væri ríflega 60 milljónir króna.

Til að setja magnið frekar í samhengi þá lagði lögreglan á Suðurnesjum hald á um 67 þúsund e-töflur allt síðasta ár, en 15 þúsund árið þar á undan.

Dómurinn yfir mönnunum féll í Kaupmannahöfn á föstudag. Annar þeirra var dæmdur fyrir aðild að smyglinu og fékk fimm ára fangelsisdóm. Samkvæmt heimildum fréttastofu fékk hinn átta ára dóm, en það hefur ekki fengist staðfest.

Heimildir fréttastofu herma að sá sem vægari dóminn fékk hafi verið háskólamenntaður og vegnað vel í lífinu þar til hann ánetjaðist fíkniefnum. Báðir voru mennirnir í fíkniefnaneyslu og leigðu saman þar til þeir voru teknir.

Þrátt fyrir að hafa setið í varðhaldi í hálft ár leituðu mennirnir aldrei aðstoðar íslenskra yfirvalda, og kom málið því hvorki inn á borð íslenska sendiráðsins í Kaupmannahöfn, né íslenska utanríkisráðuneytisins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×