Innlent

Dæmi um að börn þori ekki út vegna óvæginnar umfjöllunar á netinu

Myndin er sviðsett.
Myndin er sviðsett.
Umboðsmanni barna bárust margar ábendingar um umfjöllun fjölmiðla og birtingu mynda og upplýsinga um börn og hagi þeirra að því er fram kemur í ársskýrslu Umboðsmanns barna sem birtist í dag. Umboðsmaður telur að fjölmiðlar, og stundum foreldrar, gangi of langt með umfjöllun um einkamálefni barna sem ættu í raun að njóta friðhelgi.

Umboðsmaður barna telur að samþykki foreldra eigi ekki einungis að nægja til þess að fjölmiðlar fjalli um viðkvæm málefni barna heldur hvílir ákveðin ábyrgð á fjölmiðlum. Ef umfjöllun um börn er meiðandi ber að gæta sérstakrar varúðar.

Umboðsmaður bendir jafnfram á að norska blaðamannafélagið sé meðal annars með reglur um að þegar fjallað er um barn eru það góðir starfshættir blaðamanna að taka tillit til þess hvaða afleiðingar fjölmiðlaumfjöllunin muni hafa á barnið.

Þetta á einnig við þó að barn og foreldrar hafa samþykkt umfjöllun. Fjölmiðillinn þarf því að skoða málið með gagnrýnum hætti og spá í hvaða afleiðingar umfjöllun hafi fyrir barnið, enda hefur barn sjálfstæð mannréttindi eins og aðrir þjóðfélagsþegnar, sem aðrir geta ekki ráðstafað að vild.

Þá bendir umboðsmaður einnig á aðra fjölmiðla, svo sem samskiptasíður og aðrir netmiðar. Í skýrslu umboðsmanns segir: Umboðsmanni hafa borist fjölmargar ábendingar vegna umfjöllunar á blogg- og samskiptasíðum sem reynst hefur börnum þungbær. Mýmörg dæmi eru um fréttir ólíkra vefmiðla sem síðan færist í bloggheimana og umræðan verður þannig að börn hafa jafnvel ekki treyst sér út fyrir dyr og hafa orðið fyrir hótunum, m.a. um ofbeldi."

Þá segir einnig í skýrslunni: „Einnig er athyglisvert hve fullorðnir geta verið dómharðir og hvað þeir gera stundum lítið úr börnum sem tjá sig t.d. í fjölmiðlum um samtímamál og þá er umræðan stundum á þann veg að þetta geti nú ekki verið þeirra skoðanir heldur hljóti þetta að koma frá foreldrum eða einhverjum öðrum fullorðnum."


Tengdar fréttir

Börn oft send til ofbeldisfulls foreldris - vilja betri lög

Umboðsmaður barna telur óumdeilt að ofbeldi ætti að hafa mun meira vægi þegar teknar eru afdrifaríkar ákvarðanir um aðstæður barna fyrir dómsstólum. Í ársskýrslu embættisins fyrir síðasta ár kemur meðal annars fram að dregið sé í efa að börnum sé tryggð fullnægjandi vernd gegn ofbeldi í íslenskri réttarframkvæmd.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×