Innlent

Enn allt á huldu vegna barnaárásar í Bökkunum

Bakkarnir þar sem árásin átti að hafa átt sér stað.
Bakkarnir þar sem árásin átti að hafa átt sér stað.
Enn hefur ekkert spurst til foreldra sem hlut eiga að máli í árás sem átti að hafa átt sér stað í Bökkunum í Breiðholti um helgina. Fréttablaðið greindi frá því á mánudaginn að fjórir piltar á aldrinum 12-13 ára hefðu gengið illilega í skrokk á sex ára gömlum dreng. Rætt var við Þórarinn Engilbertsson knattspyrnuþjálfara sem sagðist hafa komið að piltunum þar sem þeir voru að misþyrma drengnum.

Þórarinn sagði meðal annars í viðtali við Fréttablaðið að hann hefði hlaupið uppi einn drenginn sem gaf honum þær skýringar að piltarnir hafi viljað taka fótbolta af sex ára gamla drengnum.

Í fyrstu var því haldið fram að drengurinn væri kinnbeins- og handleggsbrotinn. Síðar kom í ljós að hann átti að hafa tognað alvarlega á annarri hendi og hlotið áverka í andliti.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu hefur ekkert spurst til foreldranna eftir að lögreglan hóf rannsókn á málinu eftir að hafa lesið um það í fjölmiðlum. Búið er að taka skýrslu af Þórarni en í viðtali Fréttablaðsins kemur fram að hann hafi rætt við foreldra fórnarlambsins vegna málsins.

Lögreglan lýsti eftir foreldrunum í gær en engin viðbrögð hafa fengist. Miðað við hversu mikla athygli málið fékk segir Gylfi Sigurðsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni í Kópavogi að það sé skrýtið að engin hafi sett sig í samband við lögregluna.

Rannsókn heldur þó áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×