Innlent

Vorannarkort í strætó fyrir nemendur

BBI skrifar
Mynd/Hari
Strætó mun bjóða upp á vorannarkort fyrir nemendur. Þau munu gilda frá janúar. Fyrirtækið hefur verið gagnrýnt fyrir að bjóða nemendum ekki kost sem hentar þeim heldur aðeins 12 mánaða kort.

Í Fréttablaðinu í dag var fjallað um að námsmenn væru í raun neyddir til að kaupa heilsárs kort ef þeir ætluðu að nota strætó. Þá var einnig fjallað um mikla hækkun á nemakortunum, en 9 mánaða kort kostaði 20 þúsund í fyrra meðan 12 mánaða kort kostar í ár 38.500 kr.

Fyrir liggur að nemendum mun bjóðast að kaupa kort fyrir vorönn þegar þar að kemur og ágætt að nemendur séu meðvitaðir um þann valkost.

Reynir Jónsson, framkvæmdastjóri Strætó segir að ástæðan fyrir hækkununum sé sú að sveitarfélögin sem reka Strætó drógu sig út úr nemendakorta-verkefninu. Ein helsta ástæðan fyrir því er sú að nemendur nýttu sér þjónustuna ekki nógu vel. Áætlanir miðuðu við 14 þúsund nemendur á ári en aðeins 7 þúsund keyptu kortin þegar upp var staðið.

„Þess vegna leit helst út fyrir að ekki yrði boðið upp á nemakort í ár heldur yrðu nemendur að kaupa almenn kort," segir Reynir. Með því að bjóða upp á 12 mánaða kort sem er aðeins ódýrara en almenningskort og gildir lengur er komið til móts við nemendur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×