Innlent

Síminn liggur á gögnum sem gætu leyst nauðgunarmál

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hæstiréttur Íslands úrskurðaði í gær að Símanum sé ekki nauðsynlegt að láta af hendi upplýsingar sem gætu nýst við lausn á nauðgunarmáli sem rannsakað er.

Umrætt mál kom upp við Fjósaklett í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum þann 6. ágúst síðastliðinn, en grunur leikur á að ólögráða stúlku hafi verið naugðað þar. Í kröfu lögreglunnar kemur fram að hvorki stúlkan né aðrir sem með henni hafi verið umrædda nótt hafi getað borið kennsl á ætlaðan geranda. Stúlkan hafi gefið lýsingu á manninum og þeim fatnaði sem hann hafi klæðst. Við skoðun á myndbandsupptöku úr eftirlitskerfi, sem sérstaklega hafi verið sett upp vegna Þjóðhátíðarinnar í Vestmannaeyjum þann 3.-6. ágúst sl., megi sjá karlmann sem svipi til lýsingar brotaþola á ætluðum sakborningi, hlaupa frá brotavettvangi og niður á bifreiðastæði í Herjólfsdal. Einungis vinstri hlið hans og bak sjáist, en á upptökunni sjáist maðurinn tala í síma á framangreindum tíma, skömmu eftir að hið ætlaða brot hafi verið framið.

Krafan laut að því að símafyrirtækjum væri skylt að veita upplýsingar um alla farsíma sem hringt var úr eða í um fjarskiptamöstur og náðust inni í Herjólsdal á tilgreindum tíma. Lögreglan telur að vegna rannsóknar málsins sé nauðsynlegt að afla þessa gagna frá Símanum svo takast megi að upplýsa hver hafi verið á ferð. Héraðsdómur Suðurlands féllst á kröfu lögreglunnar um að öllum fjarskiptafyrirtækjum yrði gert að afhenda gögnin. Síminn kærði úrskurðinn til Hæstaréttar.

Hæstiréttur segir að þar sem að krafa lögreglunnar á Suðurlandi beinist ekki að tilteknum síma eða fjarskiptatæki heldur að því að veittar verði upplýsingar um alla farsíma verði kröfu lögreglustjórans á Selfossi verði hafnað, um að Símanum verði gert að afhenda lögreglu upplýsingar um inn- og úthringingar um þau fjarskiptamöstur sem náðu inn í Herjólfsdal á tímabilinu frá klukkan 5.35 til 5.45 mánudaginn 6. ágúst síðastliðinn.

Hér má lesa úrskurð Hæstaréttar.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×