Innlent

Landspítalanum verður hlíft í niðurskurði næsta árs

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Framlög til Landspítalans skerðast ekki á fjárlögum næsta árs.
Framlög til Landspítalans skerðast ekki á fjárlögum næsta árs.
Landspítalanum verður hlíft í niðurskurði næsta árs, samkvæmt heimildum fréttastofu og fjárlög til spítalans verða því ekki skert. Niðurskurður og skattahækkanir eru samt framundan annars staðar í kerfinu ef markmið ríkisstjórnarinnar um hallalaus fjárlög 2014 eiga að nást.

Fjárlagahallinn nam 89 milljörðum króna í fyrra samkvæmt ríkisreikningi ársins 2011. Þetta eru þó fjármunir sem ekki þarfa ð hafa áhyggjur af í bili, venju samkvæmt, enda þurfa stjórnvöld að brúa fjárlagagat yfirstandandi árs á fjárlögum ársins 2013, en  það er um 20 milljarða króna fjárlagagat.

En hvar á að ná í 20 milljarða króna? Þegar stórt er spurt.

Samkvæmt heimildum fréttastofu er gert ráð fyrir 1 prósents niðurskurði hjá öllum ráðuneytum. Niðurskurðurinn verður hins vegar ekki flatur í þeim skilningi að beitt verður mjög valkvæðum leiðum í sparnaðinum. Þetta þýðir að sumar deildir og svið sleppa alveg meðan skorið er niður annars staðar. Fjórir til fimm milljarðar króna sparast með þessum hætti.

Þá standa eftir um 15 milljarðar króna og samkvæmt upplýsingum fréttastofu verður þessu markmiði náð annars vegar með því að fresta verkefnum, t.d draga úr framkvæmdum, og koma í veg fyrir nýja útgjaldaliði.

Þá verður afganginum náð með nýjum sköttum, en þetta verða sértækir skattar, samkvæmt heimildum fréttastofu og er ekki gert ráð fyrir neinum almennum hækkunum á tekjuskatti einstaklinga eða fyrirtækja í samræmi við heiðursmannasamkomulag sem gert var við undirritun síðustu kjarasamninga.

Sérhæfðir skattar af þessu tagi mun ganga langt í brúa bilið en reikna má með að ekki takist að loka fjárlagagatinu að fullu þar sem ekki er stefnt að hallalausum fjárlögum fyrr en árið 2014.

Fyrsta sinn í mörg ár sem spítalinn er í skjóli

Skorið verður niður til velferðarmála sem fyrr, enda málaflokkurinn stærsti útgjaldaliður ríkisins. Ekki verður um flatan niðurskurð að ræða og þannig verða framlög til Landspítalans ekki skert. Það verður í fyrsta sinn í mörg ár sem spítalinn sleppur við niðurskurð.

Stjórnvöld virðast því að hafa svarað ákalli Björns Zoëga, forstjóra spítalans, sem hefur sagt niðurskurðinn kominn að þolmörkum og það fyrir löngu síðan enda hafa gæði þjónustu spítalans verið skert verulega á undanförnum tveimur árum.

Björn Zoëga
sagði í samtali við fréttastofu að hann væri ánægður með þann skilning stjórnvalda að spítalinn þyldi ekki meira. Hann sagðist samt hafa verið að vonast eftir auknum framlögum til að ráðast í nauðsynlegar fjárfestingar eins og á nýjum tækjabúnaði sem kominn er til ára sinna á mörgum deildum. 

Guðbjartur Hannesson, velferðarráðherra, var ekki tilbúinn að svara því í samtali við fréttastofu hvar áherslur myndu birtast í niðurskurði í velferðarmálum en stjórnvöld væru komin í gegnum erfiðustu aðhaldsaðgerðirnar og nú væri verið að skoða hvernig styrkja mætti málaflokkinn. thorbjorn@stod2.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×