Innlent

"Handbolti er grundvöllur að tilveru Íslendinga"

BBI skrifar
Ólafur er sagður einn besti handknattleiksmaður sögunnar.
Ólafur er sagður einn besti handknattleiksmaður sögunnar. Mynd/Valgarður
Útlendingar virðast standa í þeirri trú að handbolti sé það eina sem getur mögulega gefið Íslendingum einhverja ástæðu til að vera til, ef marka má grein sem birtist í Financial Times í dag undir fyrirsögninni „Handball gives Iceland key to existence" sem á Íslensku mætti útleggjast „Handbolti er grundvöllur að tilveru Íslendinga".

Í greininni tekur blaðamaður púlsinn á ýmsum aðilum sem hafa eitthvað með silfurdrengi Íslands að gera, hvort sem það eru fræðimenn, þjálfarar eða leikmennirnir sjálfir. Þar er Ólafi Stefánssyni hampað sérstaklega og hann sagður „einn besti handboltaleikmaður allra tíma". Einnig er þar rifjað upp þegar handboltaliðið vann silfur á Ólympíuleikunum í Bejing árið 2008, hvernig þjóðarstoltið blómstraði og hvernig kreppan kaffærði landið í kjölfarið.

„Mér fannst þetta næstum því vera mér að kenna," segir Ólafur Stefánsson við blaðamann um fjármálakreppuna sem skall á stuttu eftir að liðið vann silfur. „Fannst eins og fólk hefði ekki verið á varðbergi út af okkur."

Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari minnist í greininni á að Íslendingar hafi engan þjóðarher. „Svo að með handbolta berjumst við fyrir viðurkenningu," segir hann.

Í dag biðu sigurvonir Íslendinga skipbrot þegar liðið tapaði gegn Ungverjalandi með eins marks mun. Það er miður enda segir stjórnmálafræðingurinn Eiríkur Bergmann í umræddri grein „Þegar handboltaliðinu gengur vel er það hluti af endurvakningu þjóðarsálarinnar." Þjóðarsálin verður því að finna sér ný meðul eftir daginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×