Innlent

"Núna er vinur okkar á leið til Ameríku í skipi“

BBI skrifar
Hælisleitendur sem fundust um borð í flugvél fyrir tveimur vikum segja að vini sínum hafi tekist að koma sér úr landi og sé nú á leið til Bandaríkjanna. Þeir eru sjálfir staðráðnir í að reyna aftur að komast úr landi.

Adam Aamer og Alhawari Agukourchi hafa verið hælisleitendur á Íslandi í um fjóra mánuði. Síðan þeir komu hafa þeir ítrekað reynt að koma sér af landi brott. Síðustu helgi voru þeir gripnir á skipasvæði Eimskips og fyrr í mánuðnum fundust þeir um borð í vél Icelandair á leið til Danmerkur.

Hingað til hafa tilraunir þeirra mistekist. Strákarnir fullyrða hins vegar að félaga þeirra hafi tekist að komast um borð í skip. Birkir Blær Ingólfsson ræddi við þá í dag, en spænskumælandi vinur þeirra túlkaði samtalið.

„Núna er vinur okkar á leið til Ameríku í skipi," segir Alhawari.

Þeir telja að hann eigi um tveggja til þriggja daga siglingu fyrir höndum. Agnar Þór Agnarsson, yfirmaður öryggismála hjá Eimskipi, segir að leitað hafi verið á skipinu og enginn laumufarþegi hafi fundist um borð. Hann telur að skipinu yrði snúið við ef upp kæmist um laumufarþega.

Strákarnir segja að félagi þeirra sé hvorki sá fyrsti né síðasti sem nær að lauma sér með skipi. „Það eru svo margir að reyna, það tekst að lokum," segja þeir.

Strákarnir eru hluti af hópi flóttamanna sem hefur undafarið reynt að laumast um borð í skip Eimskips. Þeir eru hins vegar þeir einu sem hafa verið gripnir í flugvél hingað til.

„Við höfum bara reynt einu sinni að komast um borð í flugvél. Hins vegar höfum við reynt oft að komast um borð í skip. Alla vega sex til sjö sinnum," segir Adam.

Og þeir eru ekki af baki dottnir þó þeir hafi hingað til verið gripnir.

„Ef við fáum tækifæri munum við reyna það aftur og aftur því við viljum komast brott af þessu landi," segir Adam.

Þeim líkar ekki vistin hér á landi.

„Það er bara ein hugsun sem kemst að hjá okkur. Við þurfum að komast burt. Hér erum við í búri. Alveg eins og páfagaukur í búri," segir Adam.




Tengdar fréttir

Auðvelt að laumast inn í flugvélina

Hælisleitendurnir sem fundust um borð í flugvél Icelandair fyrir um tveimur vikum segja að auðvelt hafi verið að komast fram hjá öryggisgæslunni og inn í vélina.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×