Innlent

Auðvelt að laumast inn í flugvélina

BBI skrifar
Adam Aamer og Alhawari Agukourchi.
Adam Aamer og Alhawari Agukourchi.
Hælisleitendurnir sem fundust um borð í flugvél Icelandair fyrir um tveimur vikum segja að auðvelt hafi verið að komast fram hjá öryggisgæslunni og inn í vélina.

„Við vorum ekki með neitt plan eða neitt þannig," segir Adam Aamer, annar tveggja hælisleitendanna sem komust upp í flugvélina. „Við sáum bara fólk í einhvers konar vestum og urðum okkur út um þannig vesti og löbbuðum í gegn."

Adam segir að þeir hafi klifrað yfir girðingu og svo bara gengið að vélinni án nokkurra vandræða. Það hafi verið auðvelt þar sem flugvélin hafi verið langt frá öllu starfsfólki og ekki hafi verið mikil öryggisgæsla þar í kring.

Adam Aamer er annar tveggja flóttamanna sem var fyrr á árinu dæmdur fyrir að framvísa fölsuðum skilríkjum við komuna til landsins. Hinn býr nú hjá fósturfjölskyldu en Adam býr á Fit Hostel í Reykjanesbæ, ásamt nokkrum fjölda hælisleitenda. Adam hefur ásamt Alhawari Agukourchi ítrekað verið gripinn í skipum Eimskips undanfarið við að reyna að laumast um borð. Báðir fundust þeir svo í flugvél Icelandair fyrr í mánuðinum.

Þeir segjast sjá mjög eftir því uppátæki. „Mig langar bara að biðja yfirmann öryggismála á Keflavíkurflugvelli afsökunar á að hafa valdið öllum þessum vandræðum," segir Adam. Alhawari biðst sömuleiðis afsökunar. „Ég sé í sannleika sagt mjög eftir þessu," segir hann.

Eins og fram kom í fréttum Stöðvar 2 í gær fullyrða tvímenningarnir að félagi þeirra hafi nú komist um borð í skip frá Eimskipi og sé á leið til Los Angeles. Agnar Þór Agnarsson, yfirmaður öryggismála hjá Eimskipi, segir hverfandi líkur á að laumufarþegi sé um borð í Bandaríkjaskipinu enda hafi verið leitað í því tvívegis.

Strákarnir segja að hann sé hvorki sá fyrsti né síðasti sem nær að lauma sér með skipi. „Það eru svo margir að reyna, það tekst að lokum," segja þeir.

Adam dreymir um að komast til Finnlands en sé í raun sama hvar hann endar svo lengi sem það verður ekki Líbía. „Allt er betra en Ísland," segir hann. Alhawari vill helst komast til Danmerkur en þar á hann að eigin sögn öruggt skjól.

Þeir segja að á Íslandi séu þeir fangar sem búi við hörmulegar aðstæður. „Við erum eins og páfagaukur í búri," segir Adam.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×