Innlent

Við erum fullorðið fólk og getum alveg stjórnað hvað við viljum gera

Höskuldur Kári Schram skrifar
Íbúi á Hrafnistu segir að talað sé af vanvirðingu um eldri borgara í umræðunni um vínsölu á dvalarheimilum. Forstjóri Hrafnistu segir að umræðan hafi komið á óvart.

Framkvæmdir við breytingar á matsal Hrafnistu í Reykjavík standa nú yfir en til stendur breyta salnum í kaffihús fyrir íbúa og gesti þeirra. Hrafnista hefur sótt um leyfi til vínsölu en eins og fram hefur komið í fréttum hefur það verið harðlega gagnrýnt, meðal annars af formanni Landssambands eldri borgara og formanni SÁÁ.

Forstjóri Hrafnistu segir að umræðan hafi komið sér á óvart.

„Við erum bara að endurnýja matsal heimilismanna. Okkur langar að bjóða upp á kaffihús því íbúar Hrafnistu geta ekki svo auðveldlega farið á kaffihús niðri í bæ eins og við hin. Þess vegna viljum við geta boðið upp á þann möguleika að sækja kaffihús hér," segir Pétur Magnússon, forstjóri Hrafnistu.

Skipulagsstjóri Reykjavíkur á eftir að gefa Hrafnistu leyfi til vínsölu en Pétur segir að áfengið verði selt á kostnaðarverði.

Pétur segist finna fyrir mikilli hvatningu frá heimilisfólki á Hrafnistu og ættingjum þeirra.

Edda Jóhannesdóttir, íbúi á Hrafnistu er ósátt við það hvernig umræðan hefur þróast. Hún telur að forsvarsmenn í félagasamtökum eldri borgara sýni of mikla forræðishyggju.

"Það er eins og það þurfi að passa okkur. Við erum fullorðið fólk og höfum alveg vald á því að geta stjórnað hvað viljum gera," segir Edda.  „Mér finnst vera gert lítið úr okkur, með því að leggja þetta á borð eins og hefur verið gert."

Edda er ánægð með framtakið og vonist til þess að geta boðið gestum á kaffihúsið í framtíðinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×