Innlent

Skrifar greinar fyrir vefsíðu Locarno

Hugrún J. Halldórsdóttir skrifar
Ari Gunnar Þorsteinsson.
Ari Gunnar Þorsteinsson.
Íslendingurinn Ari Gunnar Þorsteinsson hefur ásamt sjö öðrum verið valinn til að skrifa greinar fyrir vefsíðu Locarno kvikmyndahátíðarinnar, sem er ein sú virtasta í heimi.

Hátíðin fer fram í Sviss dagana 1. til 11. ágúst og mun Ari Gunnar skrifa um kvikmyndirnar sem þar verða sýndar og taka viðtöl við gesti. Afraksturinn birtist síðan á heimasíðu hátíðarinnar Indiwire.com en síðan, hátíðin og samband kvikmyndagagnrýnenda í Sviss standa að þessu verkefni sem Ari Gunnar tekur þátt í.

„Það voru 80 manns sem sóttu um og átta fengu pláss. Upprunarlega áttu þeir að vera sex en svo var tveimur bætt við þegar verkefnið fékk styrk frá ríkisstjórninni í Sviss," segir Ari Gunnar. „Þetta er alveg frábært tækifæri, þetta er líka ein elsta og virtastas kvikmyndahátíð í heiminum þannig að þetta er mjög spennandi allt saman," bætir hann við.

Ari Gunnar leggur stund á mastersnám í kvikmyndafræði við Háskólann í Stokkhólmi. Hann segist vel geta hugsað sér að starfa á fleiri kvikmyndahátíðum í framtíðinni og jafnvel setjast í dómarasæti.

„Það væri voða skemmtilegt. Það er litið á þetta sem stökkpall til að komast lengra og fá sambönd og fólk til að lesa það sem maður er að skrifa. Ég sé um kvikmyndahlaðvarp sem ég tek upp í Stokkhólmi, þar sem ég bý, ásamt vinkonu minni og við tökum upp þáttinn og setjum á netið. Hver sem er, hvar sem er getur hlaðið honum niður. Ég ætla einmitt að taka með mér upptökugræjurnar og taka upp þætti á kvikmyndahátíðinni þannig að það verður mjög skemmtilegt," bætir hann við.

Áhugasamir geta fylgst með ferð Ara Gunnars og verkefnum hans á vefsíðunni moviehomework.com.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×