Innlent

Smokkurinn og almenn skynsemi enn bestu forvarnirnar gegn alnæmi

Truvada
Truvada mynd/AFP
Lyfið Truvada hefur verið samþykkt af bandaríska lyfjaeftirlitinu sem forvörn gegn alnæmissmiti. Yfirlæknir á sóttvarnarsviði Landspítalans segir að lyfið sé ekki nýtt af nálinni, notkun þess sem forvörn sé aftur á móti nýmæli.

„Þetta er lyf sem hefur verið notað lengi," segir Guðrún Sigmundsdóttir, yfirlæknir á sóttvarnarsviði. Hún var gestur í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

„Þetta er samsett lyf, tvö lyf í einni töflu, og hefur verið notað í meðferð við HIV sýkingum hingað til. Breytingin er sú að nú verður það beinlínis notað sem forvörn við smiti."

Guðrún segir að Truvada hafi bætt lífsgæði alnæmissmitaða svo um munar. Hún bendir þó á að óæskilegt sé að nota lyfið eitt og sér.

„Það má ekki gleyma öðrum forvörnum — smokkum og almennri skynsemi," segir Guðrún. „Þá skal líka taka fram að það eru aðeins Bandaríkin sem hafa samþykkt slíka notkun á Truvada. Við fylgjum aðallega Lyfjastofnun Evrópu og Sóttvarnarstofnun Evrópu og málið hefur ekki verið tekið upp á þeim vettvangi."

Hægt er að hlusta áhugavert viðtal við Guðrúnu Sigmundsdóttir hér fyrir ofan.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×