Innlent

Sexfalt fleiri skjálftar í Kötlu en venjulega

Kristján Már Unnarsson skrifar
Haraldur Sigurðsson eldfjallafræðingur segir að eitthvað mjög óvenjulegt sé að gerast í Kötlu. Fjöldi smáskjálfta á þessu ári nálgist sexhundruð en venjulega mælist langt innan við eitthundrað skjálftar á sama tíma.

Hegðun Kötlu var raunar allt annað en venjuleg í fyrrasumar þegar hún skyndilega sendi frá sér svo magnað hlaup að brúna yfir Múlakvísl tók af. Ofan á Mýrdalsjökli sáust þá miklir sigkatlar.

En hræringarnar halda áfram og segir enn fremsti eldfjallasérfræðingur þjóðarinnar að fjöldi smáskjálfta á þessu ári sé nú margfalt meiri þarna en venjulega. Haraldur segir að það sem af er þessu ári nálgist skjálftarnir á Kötlusvæðinu að vera sexhundruð en í venjulegum árum á þessu svæði séu þeir langt innan við hundrað á sama árstíma.

Hann segir Mýrdalsjökul þekktan fyrir árstíðabundna ísskjálfta. Hann telur ekki ljóst hvort þetta séu viðbrögð jökulsins við mikilli bráðnun vegna hlýinda, sem valdi miklu meiri tíðni ísskjálfta, eða hvort þetta sé vegna aukins jarðhita undir jöklinum, sem orsaki einnig ísskjálfta, eða hvort þetta eigi upptök í jarðskorpunni í sjálfu eldfjallinu.

Haraldur telur hugsanlegt að kvika hafi nálgast yfirborð, kvikuinnskot gæti skýrt aukinn jarðhita, og segir ekki hægt að útiloka að eldstöðin sé að búa sig undir gos.

„Ég myndi alls ekki útiloka það. Við verðum bara að líta á allar hliðar málains. Það er ekkert eitt svar hérna. Það er greinilegt að það er mjög óvenjulegt ástand þarna.

Það er síðan stórt spurningamerki hvort það er tengt hegðun jökulsins og bráðnun eða jarðhita eða hvort það sé tengt einhverjum fyrirbærum sem eru að gerast niðrí skorpunni og eldfjallinu sjálfu," segir Haraldur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×