Innlent

Pungsprengjur, rokk og röfl

Frá Eistnaflugi, 15. júlí 2012.
Frá Eistnaflugi, 15. júlí 2012. mynd/GRV
Tónlistamaðurinn Franz Gunnarsson gagnrýnir skrif Heiðu Þórðardóttur, ritstjóra, um tónlistarhátíðina Eistnaflug harðlega. Pistill Heiðu birtist á vefsvæðinu Spegill.is í gær. Þar fer hún hörðum orðum um hátíðina og segir ólifnað hafa ráðið þar ríkjum.

Í grein sinni, Eistnaflug eða Pungsprengja?, bendir Heiða á að mikið hafi verið um fíkniefnamisferli, umferðarlagabrot og annan ólifnað á hátíðinni í ár. Hún bendir á að það skjóti skökku við að tala hátíð þegar ástandið er svona.

„Í skjóli nætur þrífst ógeðið best eða eins og pattaraleg og feit svínapylsa," skrifar Heiða. „Ógeðið felur sig í margmenni. Undan þokunni og húminu læðast gráðugu svínin sem svífast einskis. Þau birtast áður en þú verður þess vör/var, ásamt öðrum misyndismönnum, nauðgurum og ruplurum."

„Hver verður barnið þitt um verslunarmannahelgina?" spyr Helga og svarar: „Ég verð heima með mínu."

Frá Eistnaflugi 2008.
Pistlahöfundurinn og tónlistarmaðurinn Franz Gunnarsson gefur lítið fyrir aðdróttanir Heiðu. Franz, sem sjálfur steig á svið á hátíðinni, segir stemninguna hafa verið frábæra á Eistnaflugi, rétt eins og önnur ári. Þá hafi þau lögbrot sem bókuð voru af lögreglu um helgina fæst komið hátíðinni við.

„Í alvöru Heiða, ertu að drekka naglalakk?" skrifar Franz á á bloggsvæði DV. „Ég veit ekki hvaða útihátíð þú ert að lýsa úr þinni fortíð en í guðanna bænum gerðu okkur hátíðagestum þann greiða að leita þér hjálpar ef eitthvað bjátar á í sálartetrinu. Þessi lýsing á engan veginn við Eistnaflug."

Þá bendir Franz á að engin nauðgunarmál hafi komið upp í átta ára sögu hátíðarinnar. Gestir Eistnaflugs séu iðulega kurteisir, rokkelskandi einstaklingar.

„Jú, það koma upp mál og pústrar þegar svona stór hópur kemur saman á litlu svæði en alvarleikinn er í engu samræmi við lýsinguna hennar Heiðu sem mér finnst að ætti að biðjast afsökunar á að mála Eistnaflug sem einhverja ógeðishátíð."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×