Innlent

Engar skurðaðgerðir í Neskaupstað

BBI skrifar
Fjórðungssjúkrahúsið á Neskaupstað.
Fjórðungssjúkrahúsið á Neskaupstað. Mynd/Fréttablaðið
Það eru ekki aðeins fæðingar sem geta ekki farið fram á fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað í næstu viku því ómögulegt verður að framkvæma hvers kyns skurðaðgerðir í fjórðungnum. Eins og Vísir greindi frá í gær forfallaðist skurðlæknir sem átti að vera á vakt með litlum fyrirvara. Að jafnaði er aðeins einn skurðlæknir á vakt á sjúkrahúsinu og því verður skurðlæknislaust vegna forfallanna.

Að sögn Björns Magnússonar, forstöðulæknis á stofnuninni, eru hverfandi líkur á að takist að finna afleysingarmann. „Þegar svona kemur upp förum við bara á stúfana og reynum að finna einhvern annan. Oft tekst það. En þetta er náttúrlega vondur tími vegna sumarleyfa," segir Björn. „Ef einhver hefur samband við okkur þá náttúrlega ráðum við hann."

Björn tekur fram að ekki sé um peningavandamál að ræða. „Þetta er bara mannavandamál," segir hann. Aðspurður telur hann þó að niðurskurður á svæðinu hafi mögulega leitt til þess að hæft fólk leiti annað. „Skurðlæknar mega ekki gera það sem þeir vilja. Þeir mega ekki framkvæma valaðgerðir og það náttúrlega laðar ekki að," segir hann.

Konur á svæðinu sem komnar eru að fæðingu og fá ekki þjónustu á sjúkrahúsinu vegna forfalla hafa áhyggjur af því að óæskilegt sé að ferðast þegar langt er liðið á þungun eða aftur til baka með nýfætt barn. Björn segir að örstutt sé að fara með bíl norður á Akureyri. „Þannig að þetta er nú ekki sérstakt vandamál, segir hann.

Frá og með mánudeginum verður skurðlæknislaust í 10 daga. Áfram verður reynt að finna afleysingarmann til að taka við en Björn telur ekki miklar líkur á að það takist.


Tengdar fréttir

Konum á Austurlandi gert að fæða á Akureyri eða í Reykjavík

Fæðingardeildin á fjórðungssjúkrahúsinu á Neskaupsstað verður lokuð frá og með mánudegi. Óvíst er hvort að deildin muni opna fyrir mánaðarmót en þá verða vaktaskipti. Þungaðar konur á svæðinu eru ráðþrota og gagnrýna heilbrigðisyfirvöld fyrir að koma ekki til móts við sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×