Innlent

Almenningur sniðgangi verslunarkeðjur í nafni tjáningarfrelsis

BBI skrifar
Krónan er ein þeirra verslana sem neytendur eru hvattir til að sniðganga.
Krónan er ein þeirra verslana sem neytendur eru hvattir til að sniðganga.
Á nýlegri síðu er almenningur hvattur til að sniðganga verslanirnar Krónuna, Nóatún, Elko og Byko sem eru í eigu Jóns Helga Guðmundssonar, sem m.a. rekur Kaupás. Ástæðan er sú að á sínum tíma var tímaritið Ísafold tekið úr sölu í verslunum Kaupáss eftir að það fjallaði um skemmtistaðinn Goldfinger.

Síðan leit dagsins ljós eftir að dómar Mannréttindadómstóls Evrópu féllu í síðustu viku þar sem íslenska ríkið var talið hafa brotið mannréttindi á tveimur blaðakonum sem fjölluðu um nektardansstaði. Á síðunni er sagt að gjörsemlega óþolandi sé að auðmenn og stórfyrirtæki og verslunarkeðjur beiti fjölmiðla, blaðamenn eða tímarit kúgun af því tagi að taka blöð úr birtingu ef þar er fjallað um þjóðfélagsmál með gagnrýnum hætti.

Á síðunni eru því gerðir skórnir að blaðið hafi verið tekið úr sölu því „Kópavogsbúinn Jón Helgi kærði sig ekki um að fjallað væri um aðra „fína menn" í Kópavogi, Geira í Goldfinger og bæjarstjóra Kópavogs, Gunnar Birgisson."

Hildur Lilliendahl, Ingólfur Gíslason, Jón Örn Loðmfjörð, Guðrún Elsa Bragadóttir og Margrét Helga Sesseljudóttir standa fyrir síðunni og markmiðið er helst það að koma í veg fyrir að svona nokkuð endurtaki sig og vekja fólk til meðvitundar um það.

Síðan er hýst á vefmiðlinum skjabjort.is sem er nýtt vefrit undir stjórn sama fólks. Yfirlýst markmið með síðunni er að stuðla að samfélagsbreytingum í átt að frelsi, jöfnuði og systralagi allra manneskja í ljósi feminískrar greiningar á ríkjandi samfélagsskipan.

Ekki náðist í Jón Helga Guðmundsson við vinnslu fréttarinnar og aðrir starfsmenn Kaupáss vildu ekki tjá sig um málið.

Athugasemd kl. 14:00. Tvö nöfn voru rangt stafsett þegar greinin birtist fyrst. Vísir biðst velvirðingar á því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×