Innlent

Mamma vann treyjuna fyrir son sinn

Hildur Markúsdóttir, Sölvi Leó Sigfússon 2 ára, Axel Sigfússon 5 ára og Ari Sigfússon 11 ára. Fjölskyldan sótti treyjuna á leið sinni norður á N1 mótið í fótbolta þar sem Ari spilar fyrir FH.
Hildur Markúsdóttir, Sölvi Leó Sigfússon 2 ára, Axel Sigfússon 5 ára og Ari Sigfússon 11 ára. Fjölskyldan sótti treyjuna á leið sinni norður á N1 mótið í fótbolta þar sem Ari spilar fyrir FH.
Íslendingar tóku vel í söfnunina sem UNICEF stóð fyrir í tengslum við Evrópumótið í fótbolta. Alls söfnuðust 835.500 krónur með 557 smáskilaboðum en allir sem sendu skilaboð fóru í pott þar sem verðlaunin voru árituð treyja frá liðsmönnum Barselóna.

Ungur áhugamaður um knattspyrnu, Ari Sigfússon, vann treyjuna en hann hefur verið aðdáandi Börsunga í mörg ár. Það var reyndar móðir hans, Hildur Markúsdóttir, sem sendi skilaboðin í von um að vinna treyjuna fyrir Ara.

Verðmæti treyjunnar hleypur á tugþúsundum en Ari ætlar að ramma hana inn og hengja upp á vegg. Hún er árituð af Gerard Pique, Victor Valdés, Xavi Hernandez, Carlos Pyol og David Villa. Eins og mörgum er kunnugt voru Pique, Valdés og Hernandez í landsliði Spánar á Evrópumeistaramótinu. Tveir síðastnefndu voru ekki með sökum meiðsla en voru í landsliðinu þegar Spánverjar urðu heimsmeistarar árið 2010 og Evrópumeistarar árið 2008.

Barselóna hefur borið merki UNICEF síðan árið 2006 og var það í fyrsta skipti í 110 ára sögu félagsins sem vörumerki var sett á treyjuna. Félagið hefur styrkt verkefni UNICEF víðs vegar um heiminn um 1,5 milljónir evra á ári síðan árið 2006, en það jafngildir yfir 1,6 milljarði króna. Einn besti sóknarmaður heims, Leo Messi, hefur auk þess spilað hlutverk velgjörðarsendiherra UNICEF frá árinu 2010 og m.a. heimsótt verkefni UNICEF eftir jarðskjálftana á Haítí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×