Innlent

"Ég hefði eins getað keypt fjandans bílinn“

Magnús Halldórsson skrifar
Jack Ass stjarnan Bam Margera hefur lent í ýmsum ævintýrum í dvöl sinni hér á landi, en hann þurfti meðal annars að greiða 1,2 milljónir króna vegna skemmda á bílaleigubíl sem hann var með á leigu. Fréttastofa rakst á hann á göngu á Hverfisgötu í dag, þar sem hann sagðist hafa málað bílinn.

Bam Margera er þekktur fyrir uppátæki sín með Jack Ass genginu svonefnda, sem hefur framkvæmt brjálæðislega hluti, af ýmsu tagi, og tekið það upp á myndband. Fréttir um að Margera hefði lent í hremmingum á bílaleigubíl sem hann var með á leigu, vöktu nokkra athygli á Vísi.is í gær, og það var ekki annað á Margera að skilja en að hann hefði átt nokkuð viðburðaríka daga hér.

„Ég hef komið hérna fimm sinnum og mér finnst það frábært. Ég ætlaði bara að vera hér í fimm daga en okkur líkaði svo vel hérna og ég hitti nokkra vini mína svo ég ákvað að vera lengur," segir Margera.

Margera sagðist eiga erfitt með að átta sig á því hvernig hann fór að því að borga 1,2 milljónir fyrir bílaleigubíl.

„Einhvern veginn þurfti ég að borga átta þúsund dali fyrir bílaleigubíl. Einhver bakkaði á hann og stakk svo af. Það var nú eitt. Svo sparkaði ég í hurðina af því ég var fúll eitt kvöldið. Svo var rispa á einum stað svo það þurfti að skipta um allt stykkið. Það var dæld aftan á honum og svo var ég að mála með olíulitum og þeir lentu úti um allt. Það var blá málning úti um allt í bílnum og ég var rukkaður fyrir öll sætin. Ég hefði eins getað keypt fjandans bílinn," sagði Margera.

Keyptirðu hann? spurði þá fréttamaður.

„Þetta voru 1,2 milljónir króna. Það var miðnætti og lögreglan lamdi á dyrnar á hótelinu því hún fann bílinn. Hún sagði að ég hefði stolið honum því ég skilaði honum ekki á réttum tíma," sagði Margera og hló.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×