Innlent

Fjármögnun Vaðlaheiðaganga verði rædd í vikunni

Karen Kjartansdóttir skrifar
Stefnt er að því að hægt verði að taka fjármögnun Vaðlaheiðaganga á dagskrá þingsins í vikunni. Framkvæmdin hefur verið umdeild, áætlaður kostnaður við byggingu þeirra er um 8,7 milljarðar. Vonast er til þess að féð verði greitt til baka á komandi árum, svo sem í gegnum veggjöld en óvissa hefur verið um fjármögnun verkefnisins.

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar og formaður fjárlaganefndarinnar samþykkti að málið væri tekið út úr nefndinni í gær og tekið til annarrar umræðu á þinginu en með fyrirvara.

„Ég hef frá upphafi talið þetta gott verkefni og skynsamlegt að fara í það á þessum tíma því það er hægt að innheimta veggjöld þarna en það var ekki vilji fyrir slíkri innheimtu í sambærilegum verkefnum á suðvesturhorninu," segir Sigríður.

„En ég taldi eftir að hafa lesið gögn málsins mjög ítarlega að það væri rétt að fara að ráðum IFS greiningar og setja aukið hlutafé inn í verkefið. Það var ekki vilji til þess og þá tel ég rétt að fara að ráðum ríkisábyrgðarsjóðs og gera ráð fyrir fjármögnun ríkisins á verkefninu til enda enda bjóðast ríkinu mjög hagstæðir vextir núna og það er óraunhæft, að mínu mati miðað við eiginfjárstöðu félagsins, að endurfjármagna það á þeim kjörum sem rekstraráætlun gegir ráð fyrir eftir fimm ár. Það er opin heimild til að ríkið fjármagni þetta verkefni til enda í frumvarpinu og þess vegna styð ég það en með mínum fyrirvörum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×