Innlent

Las upp úr trúnaðarbréfi á Aþingi: Smekklaust en löglegt

Valur Grettisson skrifar
Álfheiður Ingadóttir baðst afsökunar í dag.
Álfheiður Ingadóttir baðst afsökunar í dag.
„Þetta sýnir að sumir mega og aðrir ekki á þinginu," segir Vigdís Hauksdóttir sem er ósátt við framgöngu Álfheiðar Ingadóttur þingmanns Vg, sem las upp úr trúnaðarbréfi frá Björgu Evu Erlendsdóttur, stjórnarformanni RÚV, á Alþingi á föstudaginn í síðustu viku.

Í bréfinu gagnrýndi Björg Eva framgöngu flokksbróður Vigdísar, Sigurð Inga Jóhannesson, þingmann Framsóknarflokksins, sem gagnrýndi Þórólf Matthíasson hagfræðiprófessor harðlega úr ræðustóli á í síðustu viku vegna gagnrýni hans á Bændasamtökin sem birtist á Vísi í síðustu viku.

Álfheiður baðst afsökunar á því að hafa lesið bréfið úr ræðustóli á Alþingi í dag. Ástæðan var sú að bréfið var stílað á forsætisnefnd og þar hafði það ekki verið rætt efnislega.

Álfheiður bætti svo við: „Þetta voru mistök."

Vigdís gagnrýnir hinsvegar harðlega að sjálf hafi hún verið áminnt fyrir brot á þingskaparlögum eftir að hún birti færslu á Facebook um trúnaðarmál í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis.

„Ég kalla bara eftir jafnræði," segir Vigdís sem þykir framganga Álfheiðar klárt brot á þingsköpum, hún hafi lesið upp úr trúnaðargagni sem var sent á forsætisnefnd áður en það var tekið fyrir í nefndinni. Þá nafngreindi hún bréfritarann.

„Þetta mál er bara algjörlega útí hött," bætir Vigdís svo við. Hún segir þetta sýna það og sanna hversu sterka stöðu ríkisstjórnarflokkarnir hafa til þess að beita valdi forseta Alþingis, „þarna kristallast átök innan þingsins," segir hún.

Álfheiður svaraði þessu ásökunum úr ræðustól í dag. Þar sagði hún: „Þetta er smekklaust, en ekki brot á þingskaparlögum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×