Innlent

Björgunarsveitir standa í ströngu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Björgunarsveitir standa í ströngu víða á landinu vegna hvassviðris. Þetta á einkum við um Steingrímsfjarðarheiðina þar sem er snælduvitlaust veður og varla ferðafært. Björgunarsveitirnar eru með að minnsta kosti tvo eða þrjá bíla uppi á heiðinni til að hjálpa fólki og varaði björgunarsveitamaður sem Vísir talaði við, fólk við því að fara upp á heiðina.

Óskað var eftir aðstoð björgunarsveitarinnar klukkan hálftíu í morgun þar sem trampólín og aðrir lausamunir voru farnir að fjúka. Á Vestfjörðum voru sveitir jafnframt kallaðar út þar sem franskir ferðamenn óskuðu eftir aðstoð við að komast niður af Kletthálsi. Þar var veður farið að versna, snjór yfir öllu og þeir ekki vanir að keyra við þessar aðstæður.

Björgunarsveitin var kölluð út á Vopnafirði þar sem hestamaður hafði ekki skilað sér heim en talið var að hann væri á Brekknaheiði. Fljótlega eftir að sveitin var farin til leitar þá skilaði hann sér til byggða heill á húfi. Einnig er búið að kalla út sveitina á Blönduósi til að aðstoða bíl á Þverárfjallsvegi. Búið er að kalla út sveitir fyrir austan þar sem veðrið og færðin á Fjarðarheiði er orðin mjög slæm.

Slysavarnafélagið Landsbjörg vill hvetja alla sem eru á faraldsfæti í dag að skoða veðurspána og vera ekki að fara af stað nema á vel útbúnum bílum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×