Innlent

Leggja væntanlega til breytingar á veiðigjaldi

Höskuldur Kári Schram skrifar
Atvinnuveganefnd Alþingis stefnir að því að afgreiða kvótafrumvörp ríkisstjórnarinnar úr nefnd öðru hvoru megin við næstu helgi. Meirihluti nefndarinnar mun væntanlega leggja til breytingar á veiðigjaldi en önnur atriði eru einnig til skoðunar.

Nefndin hefur nú fundað fimmtán sinnum um málið en fjölmargar umsagnir hafa borist frá hagsmunaraðilum, flestar neikvæðar.

Ríkisstjórnin leggur áherslu á að klára málið í vor en átta þingfundadagar eru til stefnu. Útgerðarmenn hafa gagnrýnt frumvörpin harðlega sem og þingmenn sjálfstæðisflokks sem vilja að fresta málinu fram á haust.

Kristján L. Möller, formaður atvinnuveganefndar, sagði í samtali við fréttastofu í morgun að nefndarvinna væri á áætlun. Hann sagðist búast við því að frumvörpin verði afgreidd úr nefnd í síðasta lagi í byrjun næstu viku.

Meðal þeirra atriða sem eru nú til skoðunar eru útreikningar veiðigjalds, skilyrði fyrir nýtingarleyfum og fyrirkomulag leigupotta.

Frumvörpin fara í aðra umræðu eftir að nefndin hefur lokið sinni vinnu en sú umræða mun væntanlega hefjast í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×