Innlent

Laus eftir að hafa stungið konu tólf sinnum - móðir konunnar óttaslegin

Karen Kjartansdóttir skrifar
28 ára gömul kona sem lifði af morðtilraun í Kópavogi í lok apríl furðar sig á því að árásarmaður hennar gangi laus. Hún hlaut tólf hnífstungur og óttast mjög að á hana verði ráðist aftur. Konan undrar sig á því að lögreglan krefjist ekki frekara gæsluvarðhalds yfir árásarmanninum og ætlar að flýja land.

Árásin átti sér stað 21. apríl. Árásarmaðurinn er fyrrverandi stjúpsonur konunar. Kvöldið örlagaríka opnaði hún dyrnar fyrir piltinum því hún hélt að faðir hans væri fyrir utan. Pilturinn réðst þá samstundis ráðist á hana af miklum ofsa. Henni tókst að ná hnífnum af honum og lagðist á hann. Þá sparkaði pilturinn í höfuð hennar og tók hana því næst kyrkingartaki. Konunni tókst þó að rífa sig lausa, komast upp á efri hæð þar sem faðir drengsins var. Faðir piltsins sá þá til hans og bjargaði henni.

Fjórar hnífstungnanna voru í læri konunnar og fór ein þeirra í slagæð. Þá var hún stungin í augnkrók, tvisvar við bringubein, tvisvar í vinstri handlegg og í vinstra brjóst. Stærsta stungan var síðan í kvið en hún orsakaði það að meltingarvökvi flæddi um kviðarholið. Konan þurfti að fara í stóra aðgerð vegna þessa auk þess sem hún hlaut skurði á hálsi.

Konan treysti sér ekki í viðtal enda skammt liðið frá árásinni og hún er enn að ná sér af sárum sínum. Hún óttast um líf sitt og finnst að lögreglan hafi lítilsvirt líf sitt og öryggi með því að krefjast ekki lengra gæsluvarðhalds en það rann út síðastliðinn föstudag.

„Hann tekur með sér hníf og ræðst strax á hana. Hann tekur hana kyrkingartaki og byrjar strax að stinga hana í brjóstholið endurtekið og mjög áráttukennt. Hún náði samt að halda honum frá þannig áverkarnir ná ekki allir að verða mjög miklir," segir Guðný Björk Guðjónsdóttir, móðir konunnar.

Guðný óttast um líf dóttur sinnar og telur það hafa orðið henni til lífs að árásarmaðurinn valdi svo stóran hníf að hann gekk ekki á milli rifja henni heldur lenti á bringubeini.

„Það er erfitt að komast í gegnum þessi bein en hann beindi hnífstungunum að mestu leyti í áttina að hjartanu vinstra megin þannig ég get ekki séð annað en þetta hafi verið morðtilraun," segir Guðný.

Fréttastofa leitaði skýringa hjá lögreglunni í dag um hvers vegna ekki hefði verið farið fram á lengra gæsluvarðhald en til 11 maí. Í bréfi fengust þau svör að: „Ekki var talin ástæða til að krefjast frekari framlengingar þar sem rannsóknarhagsmunir voru ekki lengur í húfi og vistun ekki lengur nauðsynleg með tilliti til almannahagsmuna."

„Ég er engan veginn örugg með þennan mann einhver staðar í Kópavogi, nokkra kílómetra frá okkur," segir Guðný. „Hún er mjög óttaslegin enda árásin hrikalega hrottafengin og hún var algjörlega sannfærð um að hún væri að deyja og það var alveg yfirlýst markmið hans að drepa hana. Þremur vikum eftir árásina er hann bara laus og fer bara til mömmu og okkur er sagt að hann sé bara ekkert hættulegur. Hvernig getur einhver sagt að hann sé ekkert hættulegur eftir svona hrottalega árás?"




Fleiri fréttir

Sjá meira


×